„Helgin hefur verið góð hingað til. Það er skrýtið að koma hingað því bílarnir eru að kveðja og þetta var síðasta tímatakan sem ég fer inn í á þessum bíl. Ég fór afslakaður inn í fyrsta hluta síðasta hringsins því ég vissi að ég gæti unnið upp tíma seinna á hringnum. Ég mun leggjast yfir hvað gera þarf á morgun til að tryggja þá niðurstöðu sem ég vil,“ sagði Hamilton eftir tímatökuna.
Hamilton þarf að yfirstíga 12 stiga forskot Nico Rosberg í heimsmeistarakeppni ökumana til að næla í sinn þriðja heimsmeistaratitil í röð og þan fjórða á ferlinum. Rosberg dugar að ná á verðlaunapall ef Hamilton vinnur. Rosberg dugar einnig að vera á undan Hamilton í mark.
„Ég er ekki himinlifandi með þetta því ég kom hingað til að ná ráspól og vinna keppnina. Ég átti ekki svar við góðum akstri Lewis í dag. Ég náði góðum hring í þriðju lotunni en hann var bara ekki nógu góður,“ sagði Nico Rosberg eftir tímatökuna.

„Ég er ánægður með að komast í þriðju lotuna. Tímatakan gekk vel og ég er glaður að síðasta tímatakan mín á ferlinum gekk vel,“ sagði Felipe Massa sem varð tíundi á Williams bílnum í sinni síðustu tímatöku.
„Ég held við verðum að vera ánægð með þetta. Það breytist mikið hér yfir helgina sérstaklega hvað varðar hitastig. Það er fínt að komast í þriðju lotuna og vonandi náum við í stig á morgun,“ sagði Fernando Alonso sem varð níundi á McLaren bílnum
„Bíllinn okkar var nokkuð góður í tímatökunni. Hann var töluvert betri en í gær. Á morgun er keppnin og við ætlum að reyna að stela verðlaunasæti á morgun,“ sagði Sebastian Vettel sem varð fimmti á Ferrari bílnum.