Viðskipti innlent

Svava í Sautján kaupir GK Reykjavík

Sæunn Gísladóttir skrifar
NTC rekur fimmtán verslanir, meðal annars Evu og Fló og Fransí í miðbænum.
NTC rekur fimmtán verslanir, meðal annars Evu og Fló og Fransí í miðbænum. vísir/Anton
NTC festi um mánaðamótin kaup á félaginu GK Reykjavík. Þetta staðfestir Svava Johansen, eigandi NTC.

„Við höfum verið að leita í svolítið langan tíma að verslunarplássi niðri í bæ. Það kom upp þessi staða, að verslunin var til sölu og við ákváðum að styrkja aftur stöðu okkar í miðbænum. Við erum mjög sátt með þessi kaup, þetta er mjög flott verslun og hún mun veðra rekin áfram með svipuðu sniði,“ segir Svava.

Svava segir að starfsfólk GK haldi áfram. „Það kemur mikið af góðu fólki frá NTC ásamt fólkinu sem var og við reynum að tvinna þetta saman og fylla upp í einhver göt sem þarf að fylla upp í. En við kunnum vel við rótina sem þessi búð stendur á í dag. Við ætlum að styrkja hana enn betur á þessum grunni sem hún er og halda sama stíl og hefur verið,“ segir Svava.

Húsnæðið við Skólavörðustíg 6 er með veitingaleyfi en ekki vínveitingaleyfi. Svava segir ekki áform um að nýta veitingaleyfið á þessari stundu, en það geti breyst í framtíðinni.

Svava segir að aukin verslun ferðamanna í miðbænum hafi spilað inn í ákvörðunina. „Við erum með Evu og eigum hlut í Fló og Fransí og við finnum að það er aukin sala til ferðamanna, þannig að þetta er þar af leiðandi nýr hópur,“ segir Svava. 

NTC er risi á fatamarkaðnum. Um tíunda hver króna sem Íslendingar verja í fatakaup hér á landi rennur til fyrirtækisins. Félagið hefur stundað fataverslun frá árinu 1976 og er með um 150 starfsmenn. Verslunum NTC fækkið eftir hrun úr tuttugu niður í fimmtán, en fyrirtækið er nú í sóknarhug á ný. Velta þess nam 1,8 milljörðum árið 2014 þar sem það seldi ríflega þrjú hundruð þúsund flíkur, um eina flík á hvern Íslending. Ásamt GK Reykjavík rekur félagið fimmtán verslanir í um 5.000 fermetra verslunarrými auk saumastofu, heildsölu og netverslunar.

„Þetta er bara spennandi, það er aldrei að vita nema við gerum eitthvað annað niðri í bæ,“ segir Svava Johansen, eigandi NTC.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×