Erlent

Hættulegt að fara út að leika sér

Birta Björnsdóttir skrifar
Í Jemen ríkir þögul neyð eftir stríðsátök undanfarið árið. Þar er enginn staður öruggur fyrir börn og daglega deyja sex börn þar vegna stríðsátakanna.

Í gær kom út ný skýrsla Unicef um stöðu barna í Jemen. Tímasetning útgáfunnar er ekki tilviljun en um þessar mundir er ár liðið frá því að átökin í Jemen urðu að stríði. Stríðið geysar enn og er markmið Unicef með útgáfunni að vekja athygli á hve grátt átökin hafa leikið börnin í Jemen.

„Staðan í Jemen í dag er grafalvarleg. Þetta er eitt fátækasta ríki í heimi og er sannarlega fátæastta ríki Mið-Austurlanda. Þarna hefur lengi verið viðvarandi vannæring og það hefur aukist mjög mikið upp á síðkastið. Innviðir eru í miklum molum eftir átökin, skólar hafa verið eyðilagðir, sem og vatnsveitur og sjúkrahús og heilsugæslur. Allt hefur þetta gríðarlega slæm áhrif á börn,“ segir Sigríður Víðis Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi Unicef á Íslandi.

Samantektin í skýrslunni er dapurleg lesning. Þar kemur meðal annars fram að af þeim 11,5 milljónum barna sem búa í Jemen eru 10 milljónir í sárri neyð. Þá dóu um 50.000 börn undir fimm ára aldri í landinu í fyrra.

„Að meðaltali látast sex börn á dag í Jemen vegna stríðsátakanna. Það er enginn staður öruggur fyrir börn. Það er hættulegt að fara út að leika sér og fara í skólann. Það er jafnvel hættulegt að sofa heima hjá sér. Það sem við sjáum líka alltaf þegar svona niðurbrot á heilsugæslu á sér stað er að börn fara að látast úr sjúkdómum sem auðveldlega hefði verið hægt að koma í veg fyrir. Það er að gerast núna í Jemen," segir Sigríður.

Þá eru ótalin þau börn sem nýtt eru af stríðandi fylkingum til hermennsku. Sigríður segir ríkja þögla neyð í Jemen.

„Það er oft rými fyrir svona eina neyð í einu og nú hafa augu heimsins mikið verið á Sýrlandi. Með réttu, því þar ríkir mikil neyð. En við erum að benda á að það er líka mikil þörf á því að horfa til Jemen,“ segir Sigríður.


Tengdar fréttir

Herþota týnd í Jemen

Einnar af herþotum Sameinaða arabíska furstadæmisins er saknað eftir að hún sneri ekki til baka úr árásarferð gegn Houthi uppreisnarmönnum í Jemen í nótt. Ekki er ljóst hvort bilun hafi komið upp í vélinni eða hvort hún hafi verið skotin niður. Furstadæmin hafa tekið þátt í árásum á Jemen, undir forystu Sáda, í ár. Rúmlega sexþúsund manns hafa farist í stríðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×