Lífið

Reykjavík óvart gestur í hundruð milljóna herferð Rhode Island

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þetta er ekki Rhode Island
Þetta er ekki Rhode Island Skjáskot.
Embættismenn Rhode Islands ríkis í Bandaríkjunum hafa þurft að breyta rándýru kynningarmyndbandi sem ætlað er að kynna ríkið fyrir ferðamönnum. Ástæðan er einföld, í myndbandinu sést maður á hjólabretti fyrir utan Hörpu í Reykjavík.

Myndbandið sem um ræðir má sjá hér fyrir neðan.

Mistökin þykja ansi pínleg og ekki síst vegna þess að um leið og hjólabrettakappanum og Hörpu bregður fyrir segir kynnir myndbandsins eftirfarandi setningu: „Ímyndaðu þér stað þar sem þér líður eins og heima hjá þér en er samt svo einstakur að þér leiðist aldrei.

Ímyndunaraflið er reyndar einmitt það sem þarf til ætli menn sér að upplifa Hörpu eða Reykjavík á meðan heimsókn til Rhode Island stendur yfir enda hvorki Harpa, né Reykjavík, staðsett í Rhode Island ríki.

Það voru haukfránir notendur samfélagsmiðla sem komu auga á mistökin sem umsjónarmenn herferðarinnar kenna framleiðslufyrirtækinu um. Myndbandið hefur nú verið leiðrétt og er rétt útgáfa komin út.

Ef til vill er það bót í máli fyrir framleiðslufyrirtækið að maðurinn sem sést á hjólabrettinu er frá Rhode Island og myndbandið var skotið af manni frá Rhode Island líkt og kemur fram í yfirlýsingu frá framleiðslufyrirtækinu.

Fjallað hefur verið um málið í miðlum erlendis á borð við The Guardian og CNN. Samkvæmt frétt CNN kostaði auglýsingaherferð Rhode Island litlar fimm milljónir dollara, rétt rúmar 600 milljónir króna.

Myndbandið má sjá hér fyrir neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×