Erlent

Konungur Taílands sagður illa haldinn

Vísir/EPA
Konungur Taílands, sá þjóðhöfðingi sem lengst hefur setið samfleytt á valdastóli, eða í sjötíu ár, liggur illa haldinn á sjúkrahúsi og er ástand hans óstöðugt. Þetta segir talsmaður hirðarinnar en konungurinn Bhumibol Aduladei hefur eytt mestan hluta þessa árs á spítala.

Konungurinn hefur ekki sést opinberlega í marga mánuði. Hann er elskaður af þjóð sinni og sagður hafa lagt mikið af mörkum til að halda friðinn á milli stjórnmálafylkinga í landinu síðustu áratugina.

Samkvæmt tilkynningu konungshallarinnar lækkaði blóðþrýstingur konungsins verulega þegar verið var að undirbúa hann fyrir aðgerð vegna nýrna hans. Hann var settur í öndunarvél og var honum gefin lyf til að ná blóðþrýstingnum upp aftur.

Fyrr í mánuðinum gaf höllin ú tilkynningu um að konungurinn væri að jafna sig eftir að hafa fengið sýkingu í öndunarvegi sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×