Körfubolti

Möguleiki á fullkomnu landsliðsári í Höllinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
grafík/fréttablaðið
Stelpurnar í körfuboltalandsliðinu eiga ekki aðeins möguleika á því að tryggja sér þriðja sætið í riðli sínum í undankeppni EM 2017 með sigri á Portúgal í kvöld heldur eiga þær einnig möguleika á því að tryggja hundrað prósent árangur landsliðanna í Laugardalshöllinni á þessu ári.

Körfuboltalandslið karla vann alla þrjá heimaleiki sína í undankeppni EM í haust og karlahandboltalandsliðið vann sína tvo á árinu, þann fyrri í umspili á móti Portúgal í júní og þann seinni fyrr í þessum mánuði sem var fyrsti heimaleikur íslenska liðsins í undan­keppni EM 2017.

Körfuboltastelpurnar eiga góðar minningar úr Laugardalshöllinni því þær unnu eftirminnilegan sigur á Ungverjum þar í febrúar. Sigurinn kom mikið á óvart enda mætti Ungverjaland til leiks sem taplaust topplið riðilsins.

„Sá leikur var geðveikur og allt liðið spilaði ótrúlega vel saman. Vonandi tekst þeim að fara í svoleiðis gír á morgun,“ segir Helena Sverrisdóttir sem átti stórkostlegan leik á móti Ungverjum. Helena verður þó fjarri góðu gamni í kvöld því að hún er ófrísk og getur ekki verið með.

„Ég held að stelpurnar séu tilbúnar að spila aftur eftir úrslitin úr síðasta leik. Ég man lítið eftir Portúgalsleiknum úti nema að við vorum hundfúlar með hvað við vorum lélegar í þeim leik. Núna er tækifæri til að laga það,“ segir Helena. Íslenska liðið þarf annan stórleik í kvöld til að tryggja fullkomið landsliðsár í Höllinni




Fleiri fréttir

Sjá meira


×