Innlent

Eftirför á Reykjanesbraut og unglingaslagsmál á Stórhöfða

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Mikið var um ölvun í nótt ef marka má skeyti lögreglu.
Mikið var um ölvun í nótt ef marka má skeyti lögreglu. Vísir/Pjetur
Lögregla stöðvaði hópslagsmál á Stórhöfða í Reykjavík skömmu fyrir klukkan tvö í nótt. Alls tóku ellefu þátt í áflogunum, öll undir aldri, og voru foreldrar látnir sækja börn sín á lögreglustöðina.

Í skeyti lögreglu kemur fram að engan hafi sakað alvarlega, nokkrir hafi verið með minniháttar skrámur. Þá hafi enginn verið handtekinn vegna málsins.

Rétt fyrir klukkan fjögur í nótt veitti lögregla ökumanni eftirför á Reykjanesbraut eftir að leigubílstjóri hafði tilkynnt um rásandi aksturslag bíls á Miklubraut. Ökumaður jók hraðann þegar  honum var gefið merki um að stöðva og voru nokkrir lögreglubílar kallaðir út til að veita honum eftirför. Lögreglubílnum var að lokum ekið á bíl mannsins eftir að hann gerði sig líklegan til að keyra á móti umferð á Reykjanesbraut sunnan Arnarnesvegar. Ökumaðurinn var handtekinn.

Þá óskuðu dyraverðir á skemmtistað í miðbænum eftir aðstoð lögreglu um klukkan hálf tvö í nótt vegna manns sem hafði verið ógnandi við dyraverði og ítrekað ráðist á útidyr staðarins. Maðurinn brást illa við þegar lögregla reyndi að ræða við viðkomandi. Vinur mannsins kom einnig og reyndi að hindra störf lögreglu, og í skeytinu segir að mennirnir tveir hafi verið mjög æstir og illir í framkomu og því fluttir á lögreglustöðina við Hverfisgötu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×