Innlent

Mikill meirihluti vill tryggja rétt til NPA

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Fulltrúar allra flokka mættu á fund ÖBÍ í dag.
Fulltrúar allra flokka mættu á fund ÖBÍ í dag. Aðsend
Öryrkjabandalag Íslands bauð í dag til opins fundar með fulltrúum allra flokka og framboða sem bjóða fram til Alþingis í kosningunum 29. október næstkomandi.

Þar var rætt um málefni fatlaðs fólks, örorkulífeyrisþega og langveikra og frambjóðendur spurðir um afstöðu til málefna sem tengjast aðgengi, atvinnu, menntun, heilbrigðismálum, kjörum og sjálfstæðu lífi.

Að sama skapi voru þar kynntar niðurstöður Gallup-könnunnar sem ÖBÍ lét framkvæma í aðdraganda fundarins.

Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að um 60% aðspurðra telja sig ekki geta lifað á 296 þúsund krónum á mánuði, eftir skatt. Upphæðin byggir á framfærsluviðmiði Umboðsmanns skuldara að viðbættum húsnæðiskostnaði og segir í tilkynningu frá ÖBÍ að það sé talsvert hærra en þær greiðslur sem örorkulífeyrisþegar fá í dag.

Af öðrum niðurstöðum má nefna að 78,7 prósent aðspurðra eru hlynnt því að umbuna eigi fyrirtækjum og stofnunum sem ráða til starfa fólk með skerta starfsgetu.

Þá segja rúmlega 8 af hverjum 10 að tryggja skuli með lögum rétt fatlaðs fólks til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar, eða NPA.

Litlu færri, eða 77,1 prósent, eru hlynnt því að sú heilbrigðisþjónusta sem ríkið niðurgreiði í dag, svo sem þjónusta heilsugæslu, sjúkrahúsa, sérfræðilækna og læknisfræðilegra rannsókna, verði gjaldfrjáls.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×