Erlent

Á annað hundrað látnir eftir loftárás á útfararstofu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það sem eftir stendur af útfararstofunni.
Það sem eftir stendur af útfararstofunni. Mynd/Twitter
Talið er að 155 hafi látist í loftárásum bandalags Sádi-Araba á útfararstofu í höfuðborg Jemens, Saana, í dag.

Þetta hefur CNN eftir tveimur starfsmönnum heilbrigðisráðuneytisins þar í landi.



Talið er að á fimmta hundrað hafi annað hvort slasast eða látið lífið í árásinni en mikill fjöldi var saman kominn til að minnast föður innanríkisráðherra Húta-ættbálksins sem lést á dögunum.

Bandalag ríkja undir forystu Sádi-Araba hafa allt frá því í mars á síðasta ári reynt að hrekja sveitir Húta á bak aftur með öflugum loftárásum.Markmið bandalagsins er að koma Abd-Rabbu Mansour Hadi Jemenforseta aftur til valda. Hadi, sem naut stuðnings Bandaríkjanna, dvelur nú í Sádi-Arabíu eftir að Hútar náðu höfuðborginni Sanaa á sitt vald í september á liðnu ári.

Þaðan hafa uppreisnarsveitirnar, með stuðningi íranskra stjórnvalda, hertekið stóran hluta landsins. Stríðið hefur stigmagnast á síðustu misserum sem hefur gert sveitum íslamska ríkisins og Al Qaeda kleift, í slagtogi við aðra andstæðinga Húta, að blanda sér í átökin.

Minnst 10 þúsund manns hafa látið lífið í átökum í Jemen og þar er um helmingur almennir borgarar. Um 2,5 milljónir hafa þurft að flýja heimili sín. Ítrekað hefur verið reynt að koma á vopnahlé í landinu, nú síðast í ágúst, en ætíð án árangurs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×