Innlent

Sprengjusveitin eyddi bresku dufli

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Landhelgisgæslan ítrekar mikilvægi þess að fólk hafi samband komi það auga á hluti sem þessa.
Landhelgisgæslan ítrekar mikilvægi þess að fólk hafi samband komi það auga á hluti sem þessa. mynd/Lhg
Sprengjusveit Landhelgisgæslunnar eyddi í gær bresku dufli sem fannst í árfarvegi nálægt Skinneyjarhöfða. Vegfarandi kom auga á duflið og hafði samband við Landhelgisgæsluna, sem lagði strax mat á að um væri að ræða breskt dufl frá síðari heimsstyrjöld.

Í fyrstu var talið að sprengiefnatunna væri enn í duflinu, en síðar kom í ljós að sprengjuefnið hafði verið brennt fyrir löngu. Sprengjusérfræðingar ákváðu hins vegar að eyða duflinu til að taka af allan vafa.

Landhelgisgæslan ítrekar í tilkynningu sinni mikilvægi þess að vegfarendur tilkynni ef þeir verða varir við hluti sem þessa. Þá vill hún koma á framfæri þakklæti til vegfarandans sem hafði samband.

„Þó svo að í þessu tilviki hafi ekki verið nein hætta á ferð er það aðeins á færi sérþjálfaðra aðila að ganga úr skugga um slíkt og því mikilvægt að hreyfa ekki við neinu heldur tilkynna umsvifalaust um fundinn til Landhelgisgæslunnar,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×