Innlent

Kokkalandsliðið sýnir afrakstur margra mánaða vinnu í dag

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Kokkalandsliðið sem hefur æft fyrir keppnina síðustu 18 mánuði er skipað færustu matreiðslumönnum landsins, 16 talsins.
Kokkalandsliðið sem hefur æft fyrir keppnina síðustu 18 mánuði er skipað færustu matreiðslumönnum landsins, 16 talsins.
Kokkalandsliðið, sem hefur æft stíft fyrir Ólympíuleikana í matreiðslu undanfarna mánuði, ætlar að leyfa gestum og gangandi að fylgjast með undirbúningnum í Smáralind í dag. Verk dagsins er afar vandasamt en lögð verður sérstök áhersla á útlit réttanna.

Listaverk á matardiskum

Hafliði Halldórsson, framkvæmdastjóri kokkalandsliðsins, segir undirbúninginn hafa staðið yfir í átján mánuði, en liðið heldur út til Þýskalands á mótið 20. október næstkomandi.  „Í dag erum við að sýna aðra keppnisgreinina okkar sem er svokallað kalt sýningarborð eða culinary art á ensku. Það er fjöldi rétta sem eru í raun og veru listaverk á diskum, eða svo ég sletti „extreme“ flott,“ segir Hafliði í samtali við Vísi.  

Maturinn verður með íslensku yfirbragði, að sögn Hafliða. „Maturinn er borinn fram á til dæmis diskum sem hannaðir eru í kringum réttinn, sem er íslensk smíð og hönnun. Það verður íslenskur steinn, viður, silfur og ýmislegt annað. Þetta er mikið sjónarspil og gríðarlega fallegt.“

Landsliðið þarf að flytja réttina á milli staða og til þess að þeir haldi fullkomnu útliti sínu verða þeir húðaðir með matarlími. Þeir verða því ekki ætir. „Þeir þurfa að standa á borði í heilan dag, í hitanum, og þar með er orðið óhæft að borða þá. En að sjálfsögðu er þetta allt saman alvöru matur sem unnið er með á sérstakan hátt,“ segir Hafliði.

Fimm sólarhringa ferli

Aðspurður segir hann það taka allt að fimm sólarhringa að útbúa kalda borðið, sem verður til sýnis í Smáralind í dag. „Það eru nokkur handtökin á bak við þetta en þróunin tók eitt og hálft ár.“

Íslenska kokkalandsliðið er með þeim bestu í heimi, eða á sjötta sæti lista yfir bestu kokkalandslið heims. Hafliði segir að mikill spenningur sé fyrir mótinu  og hvetur hann alla til þess að fylgjast með liðinu í Smáralind í dag.

Ólympíuleikarnir í matreiðslu, IKA Culinary Olympics, er stærsta matreiðslukeppni landsliða í heiminum og jafnframt sú mest krefjandi. Keppnin á sér yfir 100 ára sögu og er haldin á fjögurra ára fresti. Í keppninni mætast margir af færustu kokkum heims frá um 50 löndum. Liðin koma með hluta af hráefni með sér að heiman, auk ýmissa tækja og tóla sem þarf á keppnisstað. Keppt er í tveimur greinum, köldu borði og heitum mat. Það lið sem nær hæstu samanlögðum stigum verður Ólympíumeistari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×