

Sigurvegarar
Fylgjufylgið
Annars var það auðvitað Elísabet Kristín Jökulsdóttir sem var sigurvegari kosninganna. Úr ýmsum áttum barst vandlætingarhnuss yfir því hvað hún vildi eiginlega upp á dekk og hagaði sér ekki eins og almennilegt lárviðarskáld og klæddist purpuraskikkju þegar Dansinn hennar við Ufsaklett var lagður fram til Norðurlandaverðlauna … en hún reyndist eiga erindi upp á dekkið: jafnvel brýnt. Hún hafði eitthvað fram að færa. Hún kom úr einhverri átt, talaði um eitthvað og á einhvern hátt sem enginn annar hefði verið fær um. Hún bauð upp á dansspor og dreymin tilsvör en svaraði líka hreint og beint þegar þess þurfti. Hún talaði fyrir allt það fólk í samfélaginu sem glímir við fíknir, áráttur, ókyrrð í lofti í blindhugarflugi, og misalvarleg geðveikindi – það er að segja, eiginlega okkur öll.
Hún fékk allt fylgjufylgið – fylgjurnar okkar kusu hana og í þrettándu víddinni er hún þegar tekin til starfa sem hennar hátign Elísabet fyrsta. Hér í hvunndagsvíddunum var það hins vegar Halla Tómasdóttir sem var sigurvegari kosninganna – að sjálfsögðu. Hún hafði margt á móti sér í byrjun. Baugsklappstýran með oflætisfirrur hins markaðsóða viðskiptaþings í mal sínum sem með frasa úr sjálfstyrkingarnámskeiðum á vör býðst til að gerast mannauðsstjóri íslensks þjóðlífs eftir að hafa hvorki meira né minna en stofnað banka – að kjósa hana myndi fullkomna uppgjörið við uppgjörið við hrunið. Svona hugsuðu mörg þegar hún kom fram: málið var ekki að hún væri óþekkt heldur var hún of merkt markaðs-ofstæki Stóru-Bólu í huga margra.
En hún setti undir sig hausinn, hélt milljón fundi út um allar þorpagrundir, einn í einu, mann á mann, og útskýrði hugmyndir sínar og sýn á íslenskt samfélag og verkefni þess – kom svo í sjónvarpið og glansaði þar. Rétt eins og Andri Snær, Elísabet og Guðni var hún jákvæð og uppbyggileg, vingjarnleg í garð meðframbjóðenda en eldheit í löngun sinni að duga landi og þjóð. Engir útúrsnúningar, engir stælar, enginn skætingur, enginn píslarvættis-ofleikur – bara gleði. Og um síðir tengdi fólk hana ekki lengur við útrás og bankstera heldur fyrst og fremst við Þjóðfundinn og gildin góðu sem út úr honum komu og hugsjónir um nýja stjórnarskrá, nýjan samfélagssáttmála – og sjálfa kvenorkuna. Og eitthvað sem líktist vongleði. Auðvitað græddi hún á því þegar hinar fráleitu árásir Davíðs og liðsodda hans dundu á Guðna, stóð hvítklædd og brosandi, jákvæð og ósnortin af karlaslagnum, sem einkenndist að vísu af því að Davíð var einn að ólmast í sínum drullupolli að sletta á Guðna. Og það munaði engu að hún næði, á síðustu metrunum, að hrifsa til sín kórónuna sem allir töldu að Guðni ætti vísa.
Fyrir hvað stendur hann?
En það var sem sé Guðni Th. Jóhannesson sem var að sjálfsögðu sigurvegari kosninganna. Hann var hreinlega sóttur upp í háskóla, mátaður við djobbið af væntanlegum vinnuveitanda – þjóðinni – og sagt að sækja um; málefnalegur, skýrmæltur, svolítið glaðhlakkalegur, vænn – bjart yfir honum. Það er eðlilegt að frambjóðandi hljóti ekki yfir fimmtíu prósent atkvæða þegar nýr forseti er kjörinn úr hópi fólks sem ekki gegnir starfinu. Hið mikla fylgi sem hann hafði framan af var sýndarfylgi; að miklu leyti frá fólki sem hugðist aðallega kjósa ekki Davíð heldur þann sem líklegastur væri til að skáka honum. Þegar fólk fór svo að slaka á og sjá að það hafði ekki ástæðu til að óttast Davíð (frekar en kannski nokkru sinni – veldi hans var ekki síst smíðað úr ótta við hann) fór fólk eðlilega að skima eftir öðrum kostum sem fremur töluðu í anda hugsjóna og gilda sem það aðhylltist. Því að þó að Guðni standi kannski ekki á eindreginn hátt fyrir tilteknar hugsjónir og gildi – fyrir utan lýðræði og frelsi í víðum skilningi – þá er ekki þar með sagt að hann standi ekki fyrir neitt. Fólk sem kaus hann var að kjósa tiltekna mannkosti, sem hann hefur sýnilega til að bera og þarflaust er að gera lítið úr: skynsemi, góðvild, samviskusemi, eitthvað sem kalla má þegnskap; í öðru lagi var fólk að kjósa þekkingu hans á starfinu; hann hefur einfaldlega stúderað starfið og velt því fyrir sér á alla kanta; og þó að hann sé reynslulítill í refsskap og útúrsnúningalist íslenskra kappræðusiða, eins og stundum sýndi sig, þá er það líka honum til framdráttar að stunda ekki þess háttar þrætubók. Hann stundar annars konar samræðulist, sem bendir vonandi til betri siða í komandi kosningum.
Og að sjálfsögðu er Davíð Oddsson líka sigurvegari þessara kosninga – sá Davíð sem birtist okkur á kosninganótt, hlýr og skemmtilegur, og virkaði eins og maður sem hægt er að eiga orðastað við, og á vonandi eftir að láta meira að sér kveða. Við höfum ekki séð þá persónu áratugum saman en vonandi er hann kominn til að vera. Tímabært er að Davíð hætti að ljá eyra við röddum þeirra sem ala á ofsóknarórum (RÚV-meinlokurnar) og telja honum trú um að eitthvert konungsríki bíði hans ef hann sé bara nógu ófyrirleitinn.
Allir voru sigurvegarar – að sjálfsögðu – og þau sem minnsta fylgið fengu ljómuðu beinlínis af hamingju á kosninganótt. Þannig á það að vera – þjóðin öll var sigurvegari þessara kosninga. Og sigrar svo leikinn í kvöld … Að sjálfsögðu.
Pistillinn birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 27. júní
Skoðun

Hverjir eiga Ísland?
Jón Baldvin Hannibalsson skrifar

Komum náminu á Höfn í höfn
Halla Hrund Logadóttir skrifar

Betra líf eftir greiningu krabbameins, tímamótarannsókn sem vísar veginn
Sigríður Gunnarsdóttir skrifar

Veiðigjöld vs afnám undanþágu orkumannvirkja frá fasteignamatsskyldu
Guðmundur Haukur Jakobsson skrifar

Tollar – Fyrir hverja?
Valdimar Birgisson skrifar

Þau eru fá en þörfin er stór
Sif Huld Albertsdóttir skrifar

Samvinnufélög, valkostur í atvinnurekstri
Elín H. Jónsdóttir,Guðrún Johnsen skrifar

Leiðin til helvítis
Jón Pétur Zimsen skrifar

Eitruð kvenmennska
Ása Lind Finnbogadóttir skrifar

Hinn nýi íslenski aðall
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir skrifar

Samningur HSÍ við Rapyd – Opið bréf til frambjóðenda í formannskjöri
Hópur stuðningsmanna Íslands í handbolta skrifar

Gjaldskrár munu ekki virka til að koma aftur framleiðslu af stað
Sæþór Randalsson skrifar

Mannúð og samvinna á tímum sögulegra þjáninga
Sólrún María Ólafsdóttir skrifar

Hvernig getum við notað nýjar ráðleggingar um mataræði?
Óla Kallý Magnúsdóttir,Jóhanna E. Torfadóttir skrifar

Þegar rykið hefur sest
Jörgen Ingimar Hansson skrifar

Búum til réttlátt lífeyriskerfi
Hrafn Magnússon skrifar

Á undan jarðýtu komi fornleifafræðingur…
Stefán Pálsson skrifar

Hin raunverulega byggðastefna
Jón Þór Kristjánsson skrifar

Sameining Garðabæjar og Hafnarfjarðar – kostir – ókostir - skynsemi
Ó. Ingi Tómasson skrifar

Rúmir 30 milljarðar í fangelsi
Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar

Sérstök staða orkusveitarfélaga!
Guðmundur Haukur Jakobsson skrifar

Miklar endurbætur á lánum menntasjóðs námsmanna
Elín Íris Fanndal skrifar

Drögum úr fordómum í garð Breiðholts
Alex Vor Ólafs,Jörundur Þór Hákonarson,Theodóra Líf Reykdal skrifar

Er almenningur rusl?
Sigurður Ingi Friðleifsson skrifar

Líffræðilega ómögulegt
Björn Ólafsson skrifar

Veiðigjaldið stendur undir kostnaði
Heiðrún Lind Marteinsdóttir skrifar

Minn gamli góði flokkur
Hólmgeir Baldursson skrifar

Hve lengi tekur sjórinn við?
Björn Brynjúlfur Björnsson skrifar

Orkan okkar, börnin og barnabörnin
Jóna Bjarnadóttir skrifar

Að fjárfesta í sjálfbærri verðmætasköpun
Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir skrifar