Lífið

Messað í Bláfjöllum

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Tvær flugur slegnar í einu höggi á páskadag í Bláfjöllum árið 1990 en hér skíðar fólk og hlýðir á messu.
Tvær flugur slegnar í einu höggi á páskadag í Bláfjöllum árið 1990 en hér skíðar fólk og hlýðir á messu. Vísir/GVA
Á myndinni hér að ofan sem tekin er af Gunnari V. Andréssyni má sjá séra Pálma Matthíasson messa á páskadag í Bláfjöllum árið 1990.

En það er ekki einungis skemmtanalífið sem heillar yfir páskahátíðina heldur eru einnig fjölmargir sem nota aukafrídaga til þess að skella sér á skíði. Pálmi Matthíasson sóknarprestur hefur efnt til messu síðastliðin 28 ár í Bláfjöllum þótt viðburðurinn hafi fallið niður nokkrum sinnum vegna veðurs.

„Þetta kom nú eiginlega bara þannig til að þegar ég kom sem prestur hingað til Reykjavíkur töluðu þeir um hvort ég vildi koma að messa þarna, þeir sem voru yfir Bláfjöllum,“ segir Pálmi og segist hafa haft gaman af. Hann segist þó ekki hafa verið fyrstur til að standa fyrir slíkri messu þar sem séra Jakob Jónsson hafi messað á Kolviðarhóli fyrir allnokkru síðan.

Hann segir það notalega stund að messa á slíkum stað. „Það er mjög notaleg tilfinning að messa svona úti í hvítri náttúrunni, ef maður getur sagt svo, og fólk heldur bara áfram að renna sér og það heyrist í kerfinu þarna um nágrennið. Fólk þarf ekkert að safnast saman,“ segir hann og bætir við að ekki sé um langa stund að ræða.

Hefðinni verður haldið og segir Pálmi stefnuna setta á að messa í Bláfjöllum á hádegi á páskadag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×