Erlent

Finnskir jólasveinar þéna vel á aðfangadag

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Jólasveinar í Finnlandi geta þénað allt að 216 þúsund íslenskra króna á aðfangadag.
Jólasveinar í Finnlandi geta þénað allt að 216 þúsund íslenskra króna á aðfangadag. vísir/getty
Jólasveinarnir í Finnlandi græða á tá og fingri á aðfangadag. Sá sem er iðinn við jólagjafaúthlutun getur þénað nær 1.800 evrur þann dag eða um 216 þúsund íslenskra króna, samkvæmt útreikningum fréttaveitunnar FNB.

Gengið er út frá því að fjölskyldur greiði 50 til 90 evrur fyrir heimsókn frá jólasveini sem venjulega stendur yfir í 15 mínútur í mesta lagi. Talið er að duglegur jólasveinn geti farið í um 20 heimsóknir.

Jólasveinarnir í Helsinki græða mest og svo í Lapplandi. Á skíðastöðunum þar getur verðið fyrir heimsókn frá sveinka verið 250 evrur. Kostnaðurinn er hár vegna langra vegalengda.

Haft er eftir jólasveini að nú þegar sé farið að bóka heimsóknir á jólunum 2017. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×