Erlent

98 tonn af eiturlyfjum urðu eldi að bráð

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Afganskur lögreglumaður varnar því að einhver forði efnunum frá því að fuðra upp.
Afganskur lögreglumaður varnar því að einhver forði efnunum frá því að fuðra upp. vísir/epa
Yfirvöld í Kabúl lögðu í gær eld að 98 tonnum af vímuefnum. Í hrúgunni mátti meðal annars finna morfín, ópíum, heróín, hass og ólöglega áfenga drykki. Hald hafði verið lagt á efnin í aðgerðum þarlendra lögreglumanna á síðustu mánuðum.

Slíkar vímuefnabrennur eru árlegur viðburður í landinu þótt bálkösturinn fari stækkandi ár frá ári. Óvíst er hvort það má rekja til aukinna afkasta í framleiðslu, röggsemi laganna varða eða löngunar stjórnvalda til að hafa brennuna sem stærsta.

Afganistan er þekkt ópíumræktarland en efnið er afar ódýrt í landinu. Ef við miðum við ópíumverð þar í landi, og gefum okkur að eldsmaturinn hafi eingöngu verið ópíum, var þarna kveikt í rúmum milljarði íslenskra króna. Sé hins vegar miðað við verð á gramminu í Þýskalandi er upphæðin sex hundruð sinnum hærri.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×