Handbolti

Sárgrætilegt tap Bergischer | Mikilvægur sigur hjá Rúnari og félögum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Björgvin Páll og félagar eru í erfiðri stöðu á botni þýsku deildarinnar.
Björgvin Páll og félagar eru í erfiðri stöðu á botni þýsku deildarinnar. vísir/afp
Íslendingaliðið Bergischer tapaði á afar svekkjandi hátt fyrir Lemgo, 28-29, á heimavelli í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.

Bergischer var hársbreidd frá sigri en liðið leiddi, 28-27, þegar tvær mínútur voru eftir. En Lemgo skoraði tvö síðustu mörk leiksins og tryggði sér sigurinn. Sigurmarkið kom á lokasekúndunni.

Arnór Þór Gunnarsson skoraði þrjú mörk fyrir Bergischer í leiknum í kvöld. Akureyringurinn nýtti öll þrjú skot sín í opnum leik en klúðraði báðum vítunum sem hann tók.

Björgvin Páll Gústavsson varði 11 skot (36,7%) í marki Bergischer sem er í vondum málum á botni deildarinnar.

Rúnar Sigtryggsson stýrði Balingen-Weilstetten til sigurs á Stuttgart í botnslag. Lokatölur 23-19, Balingen í vil.

Lærisveinar Rúnars eru í 14. sæti deildarinnar með 11 stig, þremur stigum frá fallsæti.

Flensburg endurheimti toppsæti deildarinnar með öruggum sigri, 24-35, á Coburg 2000 á útivelli.

Flensburg er með 32 stig á toppnum, jafn mörg og Rhein-Neckar Löwen en betri markatölu. Kiel er svo í 3. sætinu með 30 stig. Löwen vann Kiel í toppslag, 26-29, fyrr í kvöld.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×