Fótbolti

Slóvenski dómarinn gaf Hörpu þrennuna í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harpa Þorsteinsdóttir hefur raðað inn mörkum í undankeppninni.
Harpa Þorsteinsdóttir hefur raðað inn mörkum í undankeppninni. Mynd/KSÍ/Hilmar Þór
Íslenski landsliðsframherjinn Harpa Þorsteinsdóttir fékk þrjú mörk skráð á sig í gær þegar íslenska kvennalandsliðið vann 8-0 sigur á Makedóníu á Laugardalsvellinum en leikurinn var í undankeppni EM 2017.

Dómari leiksins, Zuzana Valentová frá Slóvakíu, hefur nú sent inn skýrslu sína til UEFA og hún skráir ekkert sjálfsmark í leiknum.

Harpa Þorsteinsdóttir skoraði tvö mörk í leiknum og var í baráttunni þegar leikmaður Makedóníu virtist senda boltann í eigið mark í fimmta marki Íslands í leiknum.  Íslensku blaðamennirnir skráðu markið sem sjálfsmark sem og sá sem var með leikinn í beinni textalýsingu fyrir UEFA.

Elín Metta Jensen sendi þá boltann fyrir og var sendingin ætluð Hörpu. Í sjónvarpsupptökum frá markinu lítur þó út fyrir að varnarmaðurinn Emilija Stoilovska sendi boltann í eigið mark.

Slóvenski dómarinn skráði hinsvegar fimmta markið íslenska liðsins á Hörpu sem var um leið komin með þrennu í tölfræði UEFA sem er auðvitað sú tölfræði sem ræður.  Það er hægt að sjá skýrsluna hér.

Þetta er önnur þrenna Hörpu á árinu en hún skoraði einnig þrjú mörk í 5-0 sigri á Hvít-Rússlandi í apríl.

Harpa er þar með kominn með 18 mörk í 61 landsleik en þar af hafa tíu af þeim mörkum komið í þessari undankeppni EM.

Harpa er eins og er markahæsti leikmaður undankeppninnar með 10 mörk í 6 leikjum en hún hefur skorað tveimur mörkum meira en Skotinn Jane Ross sem er í 2. sætinu.

Harpa hefur líka skorað tvöfalt meira en næstu leikmenn íslenska liðsins sem eru þær Dagný Brynjarsdóttir og Margrét Lára Viðarsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×