Viðskipti innlent

Hvert fótspor er þrungið reynslu

Skjóðan skrifar
Davíð Oddsson býðst til að bjarga þjóðinni frá sjálfri sér og Guðna Th. Jóhannessyni, sem ku vera hinn voðalegasti maður. Davíð og Mogginn segja okkur að hefði Guðni Th. verið valdamaður en ekki Davíð hefðu þorskastríðin tapast, sennilega kalda stríðið líka, við hefðum þurft að borga Icesave, Ísland hefði gengið í ESB og sennilega hefði allt efnahags- og fjármálakerfið hrunið. Svo lítur hann niður á þjóðina, en annars vitum við ekkert um þennan mann, segir Mogginn, og ekki lýgur hann.

Það er eitthvað annað með Davíð Oddsson. Við vitum hvar við höfum hann. Hann er maðurinn sem einkavæddi tvo ríkisbanka og gætti þess að ekki hallaði á kaupendur sem voru að kaupa banka í fyrsta sinn. Kaupendur Landsbankans og Búnaðarbankans fjármögnuðu kaup sín með gagnkvæmum lántökum úr banka hins þannig að enginn þurfti að leggja mikið út. Að öðrum kosti er alveg óvíst að óreyndir kaupendur hefðu getað keypt sinn fyrsta banka. Bankakaupin minntu mest á það þegar Óli heitinn keypti Olís af Landsbankanum með yfirdrætti frá bankanum.

Þegar útlendingar höfðu af því miklar áhyggjur að Icesave-reikningar Landsbankans væru kvikir og sköpuðu hættu fyrir bankann og íslenska fjármálakerfið fór Davíð til London og reyndi að útskýra fyrir þeim á sinni menntaskólaensku að engin hætta stafaði af Icesave. Heim kominn hafði hann af því mestar áhyggjur að ekki hefði honum tekist að eyða efasemdum útlendinga að fullu.

Þegar Davíð Oddsson var forsætisráðherra fannst honum vextir Seðlabankans allt of háir, svo háir að þeir sköðuðu íslenskt atvinnu- og efnahagslíf. Svo varð hann seðlabankastjóri og skipti um skoðun. Hávaxtastefnan hlóð í snjóhengjuna sem við erum enn að kljást við. Útlendir peningar streymdu til landsins og eru í áratug búnir að safna himinháum vöxtum í boði Seðlabankans á kostnað íslensks atvinnulífs og almennings.

Allir útlensku peningarnir sem komu hingað í skiptum fyrir krónur fóru beint út í íslensku bankana sem notuðu þá í útrásina. Þá var ekki skálað heldur hrópað ferfalt húrra fyrir Björgólfsfeðgum fyrir góða útrás. Vitanlega hefði verið hægt að gera eitthvað hundleiðinlegt við allan þennan gjaldeyri, eins og byggja upp gjaldeyrisforða Seðlabankans. Þá hefði kannski myndast viðspyrna fyrir Seðlabankann til að nota þegar harðnaði á dalnum. Það var hins vegar ekki gert því Seðlabankinn og íslensk stjórnvöld miðuðu stærð gjaldeyrisforða við landsframleiðslu en ekki stærð bankakerfisins.

Þegar harðnaði á dalnum var Seðlabankinn bjargarlaus og varð í raun fjórði stóri bankinn til að falla. Eini seðlabankinn í heiminum sem varð tæknilega gjaldþrota í hinu alþjóðlega hruni 2008.

Skjóðan skrifar í Markaðinn í Fréttablaðinu. Hún er frekju- og leiðindaskjóða, sem lætur ekkert mannlegt sér óviðkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×