Erlent

Fórnaði eigin lífi til að stöðva sjálfsvígsárás ISIS

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Svona var umhorfs í Balad eftir árásina.
Svona var umhorfs í Balad eftir árásina. vísir/twitter/epa
Íröskum karlmanni, Najih Shaker Al-Baldawi, hefur verið hampað sem hetju í heimalandinu og víða um heim. Al-Baldwani lést í hryðjuverkaárás Íslamska ríkisins en bjargaði um leið lífum annarra.

Síðastliðinn föstudag gerði hópur manna frá ISIS árás á samkomuhús sjía múslima í bænum Balad. Balad er um sjötíu kílómetra norður af höfuðborginni Baghdad. Fjörtíu manns létust í árásinni og 74 særðust.

Al-Baldawi var staðsettur fyrir utan samkomuhúsið þegar hann sá einn árásarmannanna nálgast það. Það sem meira var þá sá hann að hann var með sprengjuvesti innanklæða.

Í stað þess að hlaupa á brott gerði hann öðrum viðvart, stökk á manninn og hélt honum niðri. Árásarmaðurinn komst hvorki lönd né strönd og endaði á því að sprengja sig í loft upp meðan hann var í klóm Al-Baldwani. Afleiðingin varð sú að aðeins þeir tveir létust í þeirri sprengingu.

Önnur afleiðing aðgerða Al-Baldwani var sú að aðrir viðstaddir tóku eftir fleiri sprengjumönnum. Mun færri létust því í árásinni en ef þeir hefðu fengið að halda áfram óáreittir.

Árásin var gerð fimm dögum eftir sjálfsmorðssprengjuárás ISIS á höfuðborgina Baghdad. Þar létust rétt tæplega þrjúhundruð manns og hundruð liggja særðir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×