Erlent

Vilja að Tesla hætti að kalla bíla sína sjálfstýrða

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Talsmenn Tesla eru ekki sammála því að "sjálfstýring“ feli í sér misvísandi skilaboð.
Talsmenn Tesla eru ekki sammála því að "sjálfstýring“ feli í sér misvísandi skilaboð.
Yfirvöld bifreiða og samgangna í Þýskalandi (KBA) hafa beðið bifreiðaframleiðandann Tesla að hætta að notast við hugtakið „sjálfstýring“, eða autopilot á ensku og þýsku, til þess að auglýsa bíla sína. Þetta kemur fram í frétt BBC.

KBA telja að ökumenn kunni að misskilja eiginleika bifreiða sem sagðar eru sjálfstýrðar og þá yrði hættan sú að ökumenn teldu öruggt að fela bifreiðinni algjörlega að sjá um aksturinn.

Hins vegar eru þær bifreiðar, sem Tesla kallar sjálfstýrðar, ekki þannig úr garði gerðar að ökumaðurinn geti vanrækt að sinna akstrinum á meðan bíllinn keyrir sjálfur. Sjálfstýribúnaðurinn aðstoðar ökumenn hins vegar við að halda bílnum á akrein, stilla hraða í samræmi við aðrar bifreiðar og að skipta um akrein án aðkomu ökumannsins.

Sjálfsstýrðar bifreiðar Tesla komu á markað í október 2015. Síðan þá hafa að minnsta kosti tvö banaslys orðið þegar sjálfstýribúnaður bifreiðanna var á.

Í kjölfar beiðni KBA gaf Tesla út yfirlýsingu þar sem meðal annars er bent á að sjálfstýribúnaður bifreiða þeirra svipi til sjálfstýribúnaðar (autopilot) í flugvélum.

Bifreiðaframleiðandinn vill jafnframt meina að ef búnaðurinn er notaður rétt geti hann stuðlað að auknu öryggi. „Rétt eins og í flugvélum, þá minnkar sjálfstýringin álagið á ökumanninn og eykur öryggi í samanburði við stýra bifreiðinni handvirkt,“ segir í yfirlýsingu Tesla.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×