Erlent

Pepsi hyggst minnka sykurmagn í drykkjum sínum

Atli Ísleifsson skrifar
Pepsi greindi frá því á síðasta ári að fyrirtækið myndi hætta notkun aspartams vegna samdráttar í sölu, af heilsuástæðum og fleiru.
Pepsi greindi frá því á síðasta ári að fyrirtækið myndi hætta notkun aspartams vegna samdráttar í sölu, af heilsuástæðum og fleiru. Vísir/EPA
Bandaríski gosdrykkjaframleiðandinn Pepsi hefur ákveðið að minnka verulega sykurmagn í drykkjum sínum. Fyrirtækið greindi frá því í dag að tveir þriðju af drykkjum fyrirtækisins muni innihalda að hámarki 100 kalóríur fyrir árið 2025.

Í frétt CNN segir að 40 prósent af þeim drykkjum sem Pepsí býður upp á innihaldi nú að hámarki 100 kalóríur. Fyrirtækið segir að stefnubreytinguna megi rekja til breyttra neysluvenja og nýjum viðmiðunarreglum frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO).

Á síðustu árum hafa neytendur horfið frá drykkju gosdrykkja sem ríkir eru af kalóríum og sykri. Samfara þessu hafa margir dregið úr neyslu „diet-gosdrykkja“ af ótta við varasöm innihaldsefni.

Pepsi greindi frá því á síðasta ári að fyrirtækið myndi hætta notkun sætuefnisins aspartams vegna samdráttar í sölu, af heilsuástæðum og fleiru. Fyrirtækið hyggst einnig draga úr mettaðri fitu og salti í vörum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×