Erlent

Bandarískur drengur grófst lifandi undir stórri snjóhrúgu

Anton Egilsson skrifar
Fleiri tonn af snjó hrundu ofan á tvo drengi er voru að leik.
Fleiri tonn af snjó hrundu ofan á tvo drengi er voru að leik. Vísir/GETTY
Þrettán ára drengur grófst lifandi undir snjóhrúgu í New York í dag en talið er að fleiri tonn af snjó hafi fallið á ofan á hann. Enn er ekki vitað með vissu um orsök slyssins en líkur eru taldar á að snjóplógur hafi ýtt við hrúgunni. BBC greinir frá.

Var drengurinn ásamt öðrum vini sínum að leik þegar hrúgan féll ofan á þá. Eftir að drengirnir höfðu ekki skilað sér heim til sín á tilskildum tíma hóf lögregla leit af þeim. Með hjálp leitarhunda tókst að finna sleða sem þeir höfðu tekið með sér út.

Var því farið að grafa í hrúgunni og eftir margra klukkustunda leit fannst annar drengurinn meðvitundarlaus. Var hann úrskurðaður látinn skömmu eftir komu á spítala. Hinn drengurinn fannst rúmri klukkustund síðar en hann var á svæði þar sem súrefni náði til hans og komst hann lífs af.

Á drengurinn sem komst lífs af að hafa sagt við lögreglu að það eina sem hann muni eftir er að hann hafi heyrt píp rétt áður en að „allt varð svart“.

„Þetta var algjört slys, það er það eina sem ég get sagt. Það var engin leið fyrir nokkurn mann að sjá að drengirnir væru grafnir undir hrúgunni” sagði lögregla á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×