Innlent

Nær óhugsandi án Sjálfstæðisflokksins

Snærós Sindradóttir skrifar
Þegar sjö vikur eru liðnar frá kosningum og engin ríkisstjórn í sjónmáli er óhætt að segja að stjórnarkreppa ríki. Alþingismenn búast ekki við að mynduð verði ríkisstjórn fyrr en á nýju ári.
Þegar sjö vikur eru liðnar frá kosningum og engin ríkisstjórn í sjónmáli er óhætt að segja að stjórnarkreppa ríki. Alþingismenn búast ekki við að mynduð verði ríkisstjórn fyrr en á nýju ári.
Líkurnar á ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokks fara ört minnkandi eftir því sem lengra líður frá kosningum. Nú þegar er búið að reyna helstu möguleika við ríkisstjórnarmyndun en án árangurs. Bráðlega verða sjö vikur liðnar frá alþingiskosningum.

Fljótlega eftir kosningar kom í ljós að Viðreisn og Björt framtíð hygðust starfa náið saman í stjórnar­myndunar­viðræðunum. Flokkarnir reyndu að ná saman við Sjálfstæðisflokk en án árangurs. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, skilaði þá stjórnarmyndunarumboðinu og Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, tók við keflinu.



Enginn með umboðið


Katrín gerði tilraun til að mynda fimm flokka stjórn með Viðreisn, Bjartri framtíð, Pírötum og Samfylkingunni en þær viðræður sigldu í strand. Þá reyndi Katrín að skipta Viðreisn út fyrir Framsóknarflokkinn en var fljótlega gerð grein fyrir því að ekki kæmi til greina af hálfu hinna flokkanna að starfa með Framsókn.

Eftir að Katrín hafði skilað umboðinu fékk enginn stjórnarmyndunarumboðið um tíma. Bjarni talaði aftur við formenn Viðreisnar og Bjartrar framtíðar en alveg óvænt var tilkynnt að óformlegar viðræður yrðu á milli Sjálfstæðisflokks og VG. Katrín og Bjarni tóku sér nokkra daga til að funda en að lokum var niðurstaðan sú að of langt væri á milli flokkanna málefnalega til að gerlegt væri að brúa bilið. Birgitta Jónsdóttir tók þá við stjórnarmyndunar­umboðinu og reyndi aftur við þá fimm flokka stjórn sem upphaflega var reynd.

Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur
Annað hljóð í Birgittu

„Fyrirfram hefði ég haldið að þessi fimm flokka stjórn væri raunhæfust óháð öllu öðru. En mér finnst vera komið þyngra hljóð í Birgittu varðandi þann möguleika að vinna með VG,“ segir Stefanía Óskarsdóttir, dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Snörp orðaskipti urðu á milli Katrínar og Birgittu í Kastljósi á þriðjudag og ljóst að titringur er innan VG vegna viðræðu­slitanna. Vinstri græn virðast líta svo á að reynt sé að sverta flokkinn að einhverju leyti eftir slitin og farið sé með rangt mál um viðræðuslitin. Flokkurinn hafi verið reiðubúinn að skoða kerfisbreytingar í sjávarútvegi og landbúnaði.

Að sama skapi strauk yfirlýsing þingflokks Vinstri grænna hinum fjórum flokkunum mjög svo öfugt en í henni sagði að þingflokkur VG hefði lagt áherslu á að gera breytingar í þágu nauðsynlegra umbóta í heilbrigðismálum, menntamálum og velferðarmálum. Yfirlýsingin þótti gefa í skyn að vilja hinna fjögurra flokkanna hefði ekki staðið til þess.

Allt er þá þrennt er

Nú þykir líklegt að Sjálfstæðisflokkur, Björt framtíð og Viðreisn reyni í þriðja sinn að ná saman um málefnin. Sú ríkisstjórn hefði minnsta mögulega meirihluta á þingi, 32 þingmenn. „Það er alveg inni í myndinni að Sjálfstæðisflokkurinn nái Viðreisn aftur til baka. En samt, þar liggur munurinn í Evrópumálum og sérstaklega í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum. Ég veit ekki hvernig þetta leysist,“ segir Stefanía.

Ítrekaðar tilraunir hafa þó verið gerðar til að koma upp á milli Viðreisnar og Bjartrar framtíðar í þeirri von að hægt væri að stofna til stjórnar með Framsóknarflokknum. Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, segir að enn sem komið er sé það ekki inni í myndinni. „Við höfum ekki rætt neitt annað,“ segir Óttarr.

Þá eiga Sjálfstæðismenn og Píratar alveg eftir að ræða saman. Þeir Sjálfstæðismenn sem Fréttablaðið ræddi við við vinnslu fréttarinnar sögðust ekki vilja útiloka neitt. Það segir þó heilmikið um stöðuna að upplýsingafulltrúi Pírata hló eiginlega að blaðamanni þegar hugmyndin um samstarf flokkanna var viðruð.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×