Framkvæmdastjóri Iceland verslananna í Bretlandi segir nafnið Iceland í raun tilheyra verslunarkeðjunni. Fyrirtækið hafi notað það í 45 ár. Yfirvöld á Íslandi íhuga að krefjast ógildingar á skráningu bresku matvöruverslanakeðjunnar í ríkjum innan Evrópusambandsins.
„Við eigum betri kröfu á nafnið en þeir,“ segir Malcolm Walker, framkvæmdastjóri Iceland við Daily Mail.
„Hvaða von eiga þeir eiginlega? Það versla fimm milljónir manna við okkur í hverri viku og það búa 300 þúsund manns þarna. Þannig að við eigum í raun sterkari kröfu á nafnið en þeir. Nafnið tilheyrir okkur í rauninni.“
Hann segir þetta ekki í fyrsta sinn sem deilur koma upp varðandi nafnið Iceland og setur þetta í samhengi við komandi kosningar og telur að stjórnvöld séu að nota málið til atkvæðaveiða.
Þar að auki bendir hann á að íslenska ríkið hafi átt keðjuna fyrir fjórum árum. Keðjan hefur hins vegar reynt að koma í veg fyrir að íslensk fyrirtæki noti nafnið Iceland við vörusetningu í Bretlandi og Evrópusambandinu.
„Hvaða von eiga þeir eiginlega?“
