Innlent

Hælisleitendur flestir frá Evrópu

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Útlendingastofnun fer með umsóknir hælisleitenda.
Útlendingastofnun fer með umsóknir hælisleitenda. vísir/stefán
168 af þeim 201 sem sóttu um hæli á Íslandi í október voru frá Evrópu. Þar af var rúmur helmingur frá Makedóníu og að miklu leyti fjölskyldur. Næstflestir voru frá Albaníu, fjörutíu talsins. Þá sóttu átján Georgíumenn um hæli. Umdeilt er hvort Georgía tilheyri Evrópu en ef georgískir umsækjendur eru ekki taldir með eru evrópskir hælisleitendur 150.

136 hælisleitendanna eru fullorðnir karlmenn. 23 konur sóttu um hæli og 42 börn, þar af þrjú sem eru fylgdarlaus.

Ekkert lát virðist vera á fjölgun umsækjenda. Tæplega sjötíu komu til landsins í fyrstu viku nóvembermánaðar. Fjöldi umsókna á árinu er því kominn yfir 800 en til samanburðar höfðu tæplega 300 umsóknir borist á sama tímabili á síðasta ári.

Niðurstaða fékkst í samtals 107 umsóknum í október en Útlendingastofnun segist aldrei hafa afgreitt jafn margar umsóknir í einum mánuði. Þá voru 25 mál afgreidd með ákvörðun um endursendingu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, fjórum umsækjendum var hafnað þar sem þeir höfðu þegar fengið vernd annars staðar og sextán drógu umsóknir sínar til baka.

Fjórtán málum lauk með ákvörðun um veitingu verndar, viðbótarverndar eða dvalarleyfis af mannúðarástæðum. Þar af voru fjórir umsækjenda frá Íran og jafnmargir frá Marokkó og Nígeríu. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×