Viðskipti innlent

Karli Wernerssyni gert að endurgreiða 50 milljónir

ingvar haraldsson skrifar
Karl Wernersson þarf að endurgreiða 52 milljónir auk dráttarvaxta.
Karl Wernersson þarf að endurgreiða 52 milljónir auk dráttarvaxta. vísir/gva
Karl Wernersson hefur verið dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur til að endurgreiða slitabúi Hattar ehf. tæplega 52 milljónir króna auk dráttarvaxta. Í dómi Héraðsdóms kemur fram að Karl hafi verið, eigandi, annar stjórnarmanna, framkvæmdastjóri og prókúruhafi Háttar.

Háttur hélt utan um eignarhlut Karls í fjölda fyrirtækja. Í kjölfar bankahrunsins árið 2008 hóf félagið viðræður við viðskiptabanka félagsins og sem lauk með því að bankinn krafðist að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta.

Millifærslurnar áttu sér stað frá 19. júní 2009 og fram til mars árið 2012. Skiptastjóri taldi að í krafti stöður sinnar hefði Karl ákveðið að ráðstafa fjármunum félagsins til sín til þess að skjóta fjármunum undan fullnustugerðum skuldheimtumanna. Karl taldi sig hins vegar saklausan af öllum kröfum.

Dómari féllst á málflutning skiptastjóra og dæmdi Karl til að endurgreiða upphæðina.

Í dómi Héraðsdóms segir:

„Eins og málið liggur fyrir telur dómurinn að það hafi staðið stefnda nær að leggja fram gögn um þær skuldir við sig sem hann fullyrðir að Háttur ehf. hafi greitt með framangreindum ráðstöfunum, meðal annars hvort og að hvaða marki þeim var ráðstafað til greiðslu framangreindra skuldabréfa. Svo sem áður greinir liggur hins vegar ekkert fyrir um það í hvaða nánara tilgangi umræddar greiðslur voru framkvæmdar, hvorki almennt né í einstökum tilvikum. Í ljósi sönnunarstöðu málsins verður því á það fallist með stefnanda að líta beri svo á að um hafi verið ræða örlætisgerninga sem falli undir reglu 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Hefur ekki verið leitt í ljós að félagið hafi allt að einu verið gjaldfært þrátt fyrir afhendingu umræddra fjármuna. Verður því fallist á riftunarkröfu stefnanda vegna þeirra greiðslna sem áttu sér stað fyrir frestdag. Að fenginni þessari niðurstöðu þarf ekki að taka afstöðu til þess hvort skilyrðum 141. gr. laga nr. 21/1991 sé fullnægt um þessar greiðslur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×