England vann frábæran 2-3 endurkomusigur á heimsmeisturum Þýskalands í vináttulandsleik á Ólympíuleikvanginum í Berlín í kvöld.
Eric Dier skoraði sigurmark Englendinga með skalla eftir hornspyrnu Jordans Henderson í uppbótartíma en liðið lenti 2-0 undir í seinni hálfleik.
Toni Kroos kom Þjóðverjum yfir tveimur mínútum fyrir hálfleik með skoti sem Jack Butland í marki Englands hefði átt að verja. Skömmu síðar fór Butland meiddur af velli og í hans stað kom Fraser Forster, markvörður Southampton.
Mario Gómez tvöfaldaði forystu Þjóðverja á 57. mínútu með skalla eftir góða sendingu Sami Khedira. Þetta var fyrsta landsliðsmark Gómez frá því í júní 2012.
Þrátt fyrir mótbyr gáfust Englendingar ekki upp og Harry Kane minnkaði muninn með skoti í stöng og inn á 61. mínútu.
Enska liðið var mun sterkari aðilinn í seinni hálfleik og á 75. mínútu jafnaði varamaðurinn Jamie Vardy metin með sínu fyrsta landsliðsmarki. Markið var af dýrari gerðinni en Vardy setti boltann með hælnum framhjá Manuel Neuer í marki Þjóðverja eftir fyrirgjöf Nathaniels Clyne.
Það var svo Dier sem tryggði Englendingum sigurinn eins og áður sagði. Lokatölur 2-3, Englandi í vil.
Ensk endurkoma á heimavelli heimsmeistaranna
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar

Mest lesið

Kvartar undan Man. City við Evrópusambandið
Enski boltinn


Víkingar skipta um gír
Íslenski boltinn


Gera grín að Jürgen Klopp
Fótbolti


„Getum gengið stoltar frá borði“
Handbolti


