„Ég er búinn að fylgjast með honum og hann er frábær leikmaður,“ sagði Löw um Vardy en Þýskaland og England mætast í vináttulandsleik á Ólympíuleikvanginum í Berlín í kvöld.
„Við höfum rætt um hann, og reyndar fleiri, undanfarna daga. Hann er beinskeyttur leikmaður sem er alltaf að leita að glufum í vörn andstæðinganna og reyna að stinga sér aftur fyrir þær.“
Þrátt fyrir að hafa átt frábært tímabil fyrir topplið ensku úrvalsdeildarinnar þarf Vardy að sætta sig við að byrja á varamannabekknum í kvöld.
Harry Kane, sem tók nýlega fram úr Vardy í baráttunni um gullskóinn í ensku úrvalsdeildinni, byrjar í framlínu Englands í kvöld. Hann er einn fjögurra Tottenham-manna í byrjunarliðinu ásamt Dele Alli, Danny Rose og Eric Dier.
Löw var einnig spurður um Robert Huth, þýska miðvörðinn sem hefur spilað svo vel fyrir Leicester á tímabilinu.
Huth, sem er 31 árs, hefur ekki leikið landsleik síðan 2009 en Löw segir að hann sé enn inni í myndinni hjá sér.
„Ég er mjög ánægður með frammistöðu hans í vetur. Hann hefur alltaf verið frábær leikmaður og spilaði vel fyrir landsliðið. Ég veit að ég get hóað í hann ef það verða forföll hjá varnarmönnunum okkar,“ sagði Löw um Huth sem hefur skorað þrjú mörk í 30 deildarleikjum með Leicester á tímabilinu.
