Innlent

Skákhátíð þúsund kílómetra frá næsta þorpi

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Þátttakendur í mótinu.
Þátttakendur í mótinu. mynd/hrókurinn
Liðsmenn skákfélagsins Hróksins eru nú staddir í Ittoqqortoormiit á Grænlandi þar sem félagið stendur fyrir skákhátíð fyrir íbúa þess. Heimsókn Hróksmanna er árleg og hafa þeir nú farið þangað um páskahátíðina í meir en áratug.

Ittoqqortoormiit er staðsett á austurströnd landsins og er um þúsund kílómetra frá næstu byggð og hátíð Hróksmanna nánast eini viðburður ársins þar í bæ.

Hátíðin hófst á fimmtudag með fjöltefli FIDE meistarans Róberts Lagerman við börn bæjarins en hann er leiðangursstjóri ferðarinnar. Í gær fór svo fram páskaeggjaskákmót Bónus og Hróksins en keppendur voru um fimmtíu. Sigurvegari dagsins var hinn 11 ára Adam Napatoq, í öðru sæti varð Daniel Madsen en bronsið hreppti Paulus Napatoq, blindur piltur sem unnið hefur til fjölmargra verðlauna á mótum Hróksins gegnum árin. Keppendur og gestir fengu páskaegg og fleiri góða vinninga.

Þetta er þriðja heimsókn Hróksins til Grænlands á árinu. Í febrúar fór fimm manna leiðangur til Tasiilaq og Kulusuk á austurströndinni og efndi til hátíða í samvinnu við grunnskóla bæjanna, og á dögunum var Stefán Herbertsson á ferð í Nanortaliq á Suður-Grænlandi og færði grunnskólum taflsett að gjöf frá Hróknum og Flugfélagi Íslands.

Fleiri hátíðir og heimsóknir eru fyrirhugaðar og í maí verður árleg stórhátíð í Nuuk, höfuðborg Grænlands, þar sem heiðursgestir verða stórmeistararnir Nigel Short og Jóhann Hjartarson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×