Enski boltinn

Gerrard hefur ekki lengur áhuga á stjórastöðu MK Dons | Þrennt í stöðunni?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard klæddist síðast Liverpool-treyjunni í góðgerðaleik í janúar.
Steven Gerrard klæddist síðast Liverpool-treyjunni í góðgerðaleik í janúar. Vísir/Getty
Steven Gerrard verður ekki næsti knattspyrnustjóri MK Dons í ensku C-deildinni en Liverpool-goðsögnin hefur endað viðræður sínar við félagið.

Hinn 36 ára gamli Steven Gerrard mun yfirgefa LA Galaxy í desember og er að skoða næsta skref sitt í fótboltanum. Hann sagðist í viðtali á dögunum að hann væri með nokkra möguleika í stöðunni.

Jamie Carragher ræddi framtíð gamla liðsfélaga síns í þættinum Monday Night Football á Sky Sports í gær og var þá á því að tilboðið frá MK Dons hafi bara komið of snemma.

Gerrard stefnir á þjálfun en samkvæmt Carragher hefði verið meiri líkur á því að hann tæki við MK Dons hefði tilboðið komið eftir sex eða tólf mánuði. Þetta bendir til þess að Steven Gerrard vilji spila fótbolta eitthvað lengur.

Steven Gerrard hefur einnig verið orðaður við skoska félagið Celtic, ítalska félagið Internazionale sem og að snúa aftur til síns gamla félags Liverpool.

Steven Gerrard yfirgaf Liverpool í maí 2015 og reyndi fyrir sér með LA Galaxy í bandarísku deildinni. Hann náði ekki að vera meistari þar frekar en á átján árum með Liverpool.

Það hefur breyst mikið á Anfield eftir að Steven Gerrard fór og mestu munar um að Jürgen Klopp tók við sem knattspyrnustjóri. Klopp vill fá Gerrard aftur til félagsins en þá sem einn af þjálfurum félagsins.

Gerrard er eins og áður sagði enn að hugsa um að spila eitthvað meira áður en skórnir fara upp á hillu. Kannski er draumurinn um meistaratitil enn það sterkur.


Tengdar fréttir

Ætlar Gerrard virkilega að velja MK Dons?

Enskir fjölmiðlar velta áfram fyrir sér framtíðaráformum enska miðjumannsins Steven Gerrard sem er að koma heim til Englands eftir tveggja ára dvöl hjá bandaríska félaginu Los Angeles Galaxy.

Gerrard kveður Los Angeles

Gefur sterka vísbendingu um að tímabilið hafi verið hans síðasta hjá LA Galaxy.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×