Innlent

Hvetja Sigmund Davíð til að halda áfram

Höskuldur Kári Schram skrifar
Þingmenn Framsóknarflokks hvetja Sigmund Davíð Gunnlaugsson til að halda áfram að leiða flokkinn í Norðausturkjördæmi þrátt fyrir niðurstöðuna í formannskjörinu í gær. Sigmundur hefur enn ekki óskað Sigurði Inga Jóhannssyni til hamingju með kjörið.

Þingflokkur framsóknarmanna kom saman til fundar í dag, í fyrsta sinn eftir að nýr formaður tók við embætti. Mikil ólga hefur verið innan flokksins og enn er óljóst hvort að framsóknarmönnum takist að sameina flokkinn fyrir alþingiskosningar.

Karl Garðarsson þingmaður framsóknarmanna er bjartsýnn á að það takist að sætta þær fylkingar sem tókust á í aðdraganda formannskjörsins.

„Ég sé ekki afhverju það ætti ekki að vera hægt. Það voru vissulega tvær fylkingar sem voru að takast á. En ég hef fulla trú á því að sættir náist á milli þessara hópa, “ segir Karl.

Karl hvetur Sigmund til að halda áfram þrátt fyrir niðurstöðuna í gær. Undir það tekur Willum Þór Þórsson flokksbróðir hans.

„Hann er oddviti okkar í Norðausturkjördæmi og hann nýtur ennþá sömu virðingar fyrir það sem hann hefur gert,“ segir Willum.

Sigurður Ingi segir mikilvægt að sameina flokkinn á ný eftir átökin undanfarna daga. Hann hefur ekki náð að tala við Sigmund eftir niðurstöðuna í gær.

„Við höfum ekki náð að talast við en ég hef komið skilaboðum til hans,“ segir Sigurður.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×