Viðskipti innlent

Óvissan í stjórnmálunum hefur áhrif á skuldabréfamarkað

jón hákon halldórsson skrifar
Jón Bjarki Bentsson, hjá greiningardeild Íslandsbanka, segir marga hafa áhyggjur af því að erlendir fjárfestar haldi sig til hlés í bili.
Jón Bjarki Bentsson, hjá greiningardeild Íslandsbanka, segir marga hafa áhyggjur af því að erlendir fjárfestar haldi sig til hlés í bili.
Ávöxtunarkrafa á flesta flokka ríkisbréfa hefur hækkað eftir helgina. Jón Bjarki Bentsson, sérfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka, telur að þetta tengist óvissu um framtíð ríkisstjórnarinnar. Tímasetning aflands­krónuútboðs er háð lagafrumvarpi frá Alþingi og pólitísk óvissa gæti haft áhrif á afdrif þess máls. Jón Bjarki segir að ávöxtunarkrafa á lengri flokka ríkisbréfa hafi hækkað um 0,3 prósent. „Það eru virkustu viðskiptin með þá þannig að þeir eru ágætis mælikvarði á stemninguna á markaði frekar en styttri flokkarnir,“ segir hann.

Jón Bjarki segir hækkunina tengjast almennri skammtímaóvissu vegna óróa á stjórnarheimilinu en ekki síður því að menn hafa áhyggjur af því að erlendir fjárfestar haldi sig til hlés í bili. „Þeir hafa haft mikil áhrif á markaðinn síðustu mánuðina og væntingar um þeirra hegðun er ekki hvað síst drifkraftur.“

Jón Bjarki segir rétt að halda því til haga að þrátt fyrir þessar hreyfingar þá sé ávöxtunarkrafan á ríkisbréf ekkert tiltakanlega há miðað við undanfarnar vikur. „Þó velta hafi verið töluverð og meiri svartsýni ríkjandi á markaði þá er eftir sem áður yfirvegun frekar en að það sé einhver allsherjar flótti á markaði,“ segir Jón Bjarki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×