Innlent

Ísland í kastljósi erlendra fréttamiðla

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Erlendar sjónvarpsstöðvar fjalla um Ísland.
Erlendar sjónvarpsstöðvar fjalla um Ísland. vísir/ÓKÁ
Ísland hefur verið í kastljósi erlendu heimspressunnar vegna leka Panama-skjalanna og stöðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og flestir stærstu fjölmiðlar heims greindu ítarlega frá framvindunni á Íslandi í gær. Framan af degi voru áberandi fréttir af fundi forsætisráðherra og forseta Íslands. Frétt BBC um málið var efst á fréttasíðu vefsins og þar var farið yfir ákvörðun forseta um að verða ekki við ósk Sigmundar Davíðs um heimild til þingrofs. CNN-fréttastofan greindi frá því sem stórfrétt að Sigmundur Davíð væri hættur og vitnaði í mótmælendur á Austurvelli sem kröfðust kosninga þrátt fyrir að hann hefði stigið til hliðar.

„Ísland getur ekki verið eina vestræna evrópska lýðræðisríkið með leiðtoga í þessari stöðu,“ sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingar, í viðtali við breska miðilinn The Guardian í gær, sem hefur fjallað ítarlega um Ísland og málefni Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fráfarandi forsætisráðherra, undanfarna daga.

Við Bessastaði biðu blaðamenn frá norrænum miðlum á borð við Aftenposten. Þá var sjónvarpsstöðin Al-Jazeera með beina útsendingu frá Alþingishúsinu í gær.

Fjölmargir aðrir miðlar fjölluðu um málið. Tvær af stærstu fréttaveitum heimsins, AP og AFP, fjalla um málið. Þá eru viðskiptamiðlarnir The Financial Times og Bloomberg með umfjöllun ásamt síðum á borð við Mashable og ABC í Bandaríkjunum.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 6. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×