Viðskipti innlent

Sylvía Rut ráðin ritstýra Pressunnar

Atli Ísleifsson skrifar
Sylvía Rut Sigfúsdóttir hefur starfað hjá Vefpressunni frá júní 2013.
Sylvía Rut Sigfúsdóttir hefur starfað hjá Vefpressunni frá júní 2013. Mynd/Pressan
Sylvía Rut Sigfúsdóttir hefur verið ráðin ritstýra vefmiðilsins Pressunnar. Hún tekur við starfinu af Kristjóni Kormáki Guðjónssyni sem er ritstjóri DV og DV.is.

Í tilkynningu kemur fram að Sylvía Rut hafi starfað hjá Vefpressunni frá í júní 2013, fyrst sem blaðamaður og svo sem ritstýra Bleikt.is. Hún verður áfram ritstýra Bleikt.

Sylvía Rut segist hlakka mikið til þess að takast á við þessa áskorun. „Á Pressunni, Bleikt og Eyjunni eru frábærir blaðamenn og lausapennar sem ég hef fengið að kynnast vel í mínu starfi og er ég spennt að vinna með þeim áfram í þessu nýja hlutverki. Þakka ég Birni Inga Hrafnssyni og Arnari Ægissyni fyrir traustið og þetta spennandi tækifæri,“ segir Sylvía Rut.

Sylvía Rut er með meistaragráðu í fjölmiðlafræði frá Kaupmannahafnarháskóla. Hún býr í Hafnarfirði ásamt eiginmanni sínum Snorra Sigurðssyni verkfræðingi og tveimur sonum. „Að þróa og breyta Bleikt.is bæði efnislega og útlitslega hefur verið frábær reynsla og er ég lesendum ótrúlega þakklát fyrir góðar viðtökur. Er ég mjög spennt að gera það sama með Pressuna og gera vefinn enn sterkari í samvinnu við blaðamenn og stjórnendur Vefpressunnar,“ er haft eftir Sylvíu Rut.

Pressan er sjötti stærsti vefur landsins samkvæmt topplista Gallup með um 50 þúsund lesendur á dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×