Viðskipti innlent

Bankasýslan tilnefnir fimm nýja stjórnarmenn í stjórn Íslandsbanka

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Friðrik Sophusson er stjórnarformaður Íslandsbanka.
Friðrik Sophusson er stjórnarformaður Íslandsbanka. Vísir/stefán
Bankasýsla ríkisins hefur tilnefnt sjö aðalmenn og tvo varamenn í kosningu til stjórnar Íslandsbanka fyrir aðalfund bankans sem haldinn verður næstkomandi þriðjudag. Frá þessu er greint á vef bankans.

Af þeim sem sitja nú í stjórn bankans tilnefnir Bankasýslan tvo stjórnarmenn til áframhaldandi setu, þau Friðrik Sophusson, sem verið hefur formaður stjórnarinnar frá því í janúar 2010, og Helgu Valfells, sem verið hefur í stjórninni frá því í september 2013.  

Aðrir sem tilnefndir eru sem aðalmenn í stjórnina eru þau Anna Þórðardóttir, Auður Finnbogadóttir, Árni Stefánsson, Hallgrímur Snorrason og Heiðrún Jónsdóttir. Þá tilnefnir Bankasýslan varamenn í stjórn Íslandsbanka, þau Pálma Kristinsson og Herdísi Gunnarsdóttur.

Íslandsbanki komst að fullu í eigu ríkisins fyrr á árinu í kjölfar þess að kröfuhafar Glitnis samþykktu að 95 prósent hlutur þeirra í Íslandsbanka yrði hluti af stöðugleikaframlagi þeirra til stjórnvalda.  






Fleiri fréttir

Sjá meira


×