Erlent

Rússar segja uppreisnarmenn hafa beitt efnavopnum í Sýrlandi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Óháðir aðilar hafa ekki staðfest þessar upplýsingar.
Óháðir aðilar hafa ekki staðfest þessar upplýsingar. Vísir/Getty
Rússneski herinn hefur veitt bandarískum yfirvöldum upplýsingar sem Rússar segja sýna fram á að uppreisnarmenn í Aleppo í Sýrlandi hafi beitt efnavopnum.

Ríkisfjölmiðlar Sýrlands hafa sagt frá því að sprengikúlum með eitruðu gasi hafi verið beitt af uppreisnarmönnum gegn sýrlenska stjórnarhernum í Aleppo.

Rússneska fréttastofan Interfax greindi frá því að sjö hafi látið lífið og tuttugu særst eftir árásir á þriðjudaginn. Óháðir aðilar hafa ekki staðfest þessar upplýsingar.

Á þriðjudaginn var greint frá því að vísbendingar væru um að klórgasi hafi verið beitt á íbúa í bænum Saraqeb í Norður-Sýrlandi sem er undir stjórn uppreisnarmanna. Einkenni klórgass eru meðal annars eymsli í augum, kláði í húð, öndunarerfiðleikar og blæðingar frá munni. Árið 2013 greindi BBC frá því að sterkar vísbendingar hefðu fundist um notkun klórgass í kringum bæinn en því neituðu sýrlensk stjórnvöld.

Hart er nú barist í grennd við Aleppo þar sem uppreisnarmenn reyna að brjótast í gegnum umsátur stjórnahersins í bardaga sem líklegt þykir að muni skera úr um framtíð borgarinnar sem áður var miðstöð verslunar og þjónustu í Sýrlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×