“Veður og vindur hafa verið hagstæð Drekanum og siglingin hefur verið góð,” segir skipstjórinn, Björn Ahlander, í fréttaskeyti frá leiðangrinum.
Skipið er þar með komið í Eystribyggð, eins og svæðið hét til forna, en þar var mesta byggðin á tíma norrænu íbúanna. Rústir Hvalseyjarkirkju eru skammt frá Quqortoq en þaðan bárust síðustu fréttir af norræna fólkinu árið 1408, í bréfi um brúðkaup íslenskra hjóna. Hvarf norrænu þjóðarinnar á Grænlandi eftir það er ein dularfyllsta ráðgáta mannkynssögunnar.
Mynni Eiríksfjarðar er einnig skammt undan en þar var Brattahlíð, bær Eiríks rauða og Leifs Eiríkssonar. Þangað er áformað að Drekinn sigli áður en för verður haldið áfram til Nýfundnalands og meginlands Ameríku, í kjölfar Leifs heppna og félaga, fyrstu Evrópumanna sem vitað er um að þar stigu á land.
Myndskeið af komu víkingaskipsins til Reykjavíkur má sjá hér.
