Innlent

Flytja þarf fárveikt fólk

Svavar Hávarðsson skrifar
Þær aðstæður koma upp reglulega að flytja þarf fólk í flutningabílum á milli spítalanna í Fossvogi og á Hringbraut því nauðsynleg tæki eru svo fyrirferðarmikil að þau komast ekki í sjúkrabíl.
Þær aðstæður koma upp reglulega að flytja þarf fólk í flutningabílum á milli spítalanna í Fossvogi og á Hringbraut því nauðsynleg tæki eru svo fyrirferðarmikil að þau komast ekki í sjúkrabíl. Mynd/LSH
Reynsla síðustu ára sýnir að flytja þarf sjúklinga í um níu þúsund skipti á milli starfsstöðva Landspítalans í Fossvogi og á Hringbraut á hverju ári. Slíkir flutningar geta reynst þeim veikustu stórhættulegir og beinbrotnum börnum mjög erfiðir.

Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á LSH, staðfestir að daglega þarf að flytja 25 sjúklinga að meðaltali – og koma upp aðstæður þar sem notast þarf við flutningabíla í stað sjúkrabíla þar sem fyrirferðarmikill búnaður þarf að fylgja hinum veika. Varla þarf að fjölyrða um óhagræðið og kostnaðinn sem af þessu hlýst, segir Ólafur en hver ferð bætir heilum degi við dvöl hvers sjúklings á spítalanum með tilheyrandi kostnaði og óhagræði fyrir einstaklinginn.

Ólafur BaldurssonVÍSIR/ERNIR
Ólafur segir að þessir flutningar geti verið lífshættulegir og nefnir dæmi af hjartasjúklingi sem þarf að fara í hjarta- og lungnavél.

„Þetta eru sjúklingar sem eru lífshættulega veikir og eiga sér þá einu von að komast í þessa vél sem er einungis staðsett á Hringbraut. Ef allt væri eðlilegt myndi okkur aldrei detta það í hug að flytja þennan sjúkling – aldrei nokkurn tímann,“ segir Ólafur. „Það er annað dæmi sem truflar okkur mjög mikið og það eru börn með ákveðna tegund af beinbrotum. Þau koma brotin í Fossvog, og um hluta þess hóps gildir að það þarf að flytja þau í ákveðnum fyrirferðarmiklum búnaði í sendibíl á milli spítalanna, með tilheyrandi verkjum og óþægindum. Það er með öllu óásættanlegt að þurfa að gera þetta, en eins og allir vita er barnaþjónustan staðsett við Hringbraut en slysaþjónustan í Fossvogi,“ segir Ólafur.

Spurður hvort sjúklingur hafi beinlínis látist vegna flutnings á milli staða svarar Ólafur því til að flutningur sjúklinga milli spítala hafi klárlega átt þátt í að tefja greiningu og meðferð margra sjúklinga, en erfitt sé að fullyrða að flutningurinn einn og sér sé orsök dauðsfalls. „En því oftar sem þarf að flytja sjúkling, þeim mun meiri áhættu er hann settur í, og ef um lífshættuleg veikindi er að ræða er augljóst að viðbótarflutningur eykur lífshættuna verulega, og það að óþörfu. Þetta er óásættanlegt fyrir okkur öll. Svo vel vill til að við eigum frábært sjúkraflutningafólk sem stendur sig með mikilli prýði, en það getur ekki bjargað öllu og það er slæmt að búa við klofinn spítala sem setur það, og okkur öll, í þessa aðstöðu,“ segir Ólafur.

En það þarf að flytja fleira á milli húsa Landspítalans en veikt fólk; um 25.000 ferðir þarf á milli húsa með sýni hvers konar og fjölmargar ferðir sérhæfðra starfsmanna á milli staða þar sem þeirra er þörf á hverjum tíma.

Þessu til viðbótar nefnir Ólafur að þegar komið er með sjúklinga á Hringbraut bíður oft flókinn flutningur með fárveikt fólk um rangala og upp lyftur, sem eru allt of litlar fyrir tækjabúnaðinn.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×