Erlent

Sagður hafa tekið myndir af brjósti fórnarlambs síns

Samúel Karl Ólason skrifar
Brock Turner.
Brock Turner. Vísir
Stanford-nauðgarinn svokallaði, Brock Turner, er sagður hafa tekið mynd af öðru brjósti meðvitundarlausrar konu sem hann nauðgaði og sent þær til vina sinna. Vitni segist hafa séð hann taka ljósmynd áður en tveir sænskir menn komu konunni til bjargar.

Turner var nýverið dæmdur fyrir að nauðga ungri konu við ruslagám á skólalóð Stanford háskólans í Kaliforníu í janúar í fyrra. Farið var fram á sex ára fangelsisdóm gegn Turner en hann var eingöngu dæmdir í sex mánaða fangelsi.

Lögregluþjónar sem handtóku Turner sáu á síma hans að hann hafði fengið senda spurninguna: „Hver á þetta brjóst?“ Þegar búið var að fá leitarheimild fyrir símann hafði skilaboðunum verið eytt. Þau höfðu verið send með appinu Group Me, en í lögregluskýrslunni, sem hefur verið gerð opinber, kemur fram að aðrir meðlimir hópa geta eytt myndum og skilaboðum sem hafa verið send þar. Þau eru ekki geymd í símunum.

Í skýrslunni kemur fram að þegar lögregluþjónar komu konunni til hjálpar var vinstra brjóst hennar bert.

Daily Mail birti í gær mynd af skjá síma Turner sem tekin var af lögreglu. Í umfjöllun þeirra kemur fram að hann hafi margsinnis drukkið áfengi og neytt fíkniefna á árinu áður en hann var handtekinn. Turner sagði sjálfur að hann hefði ekki drukkið fyrr en hann kom í háskólann og vildi hann kenna drykkjumenningunni í Bandaríkjunum um atvikið.


Tengdar fréttir

Stanford-nauðgarinn: „Ég gerði mistök, ég drakk of mikið“

Brock Turner, sem dæmdur var í sex mánaða fangelsi í liðinni viku fyrir að nauðga meðvitundarlausri konu á bak við ruslagám á skólalóð Stanford-háskóla í janúar í fyrra, virðist að litlu sem engu leyti taka ábyrgð á gjörðum sínum umrædda nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×