Innlent

Mistök að segja að það væri flókið að eiga peninga á Íslandi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins segir að það hafi verið mistök hjá sér að segja að það væri flókið að eiga peninga á Íslandi.

Sigurður Ingi lét þessi ummæli fjalla í samtali við Heimi Má Pétursson fréttamann Stöðvar 2 þann 30. mars síðastliðinn en þá hafði verið greint frá því að nöfn þriggja ráðherra væri að finna í Panama-skjölunum. Tæpri viku síðar sagði einn þeirra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, af sér en konan hans á um milljarð króna í félagi á Tortóla.

Sigurður Ingi, sem þá var atvinnuvegaráðherra, var spurður að því í viðtalinu hvort það væri eðlilegt að forsætisráðherra og kona hans ættu svona háar fjárhæðir á Tortóla.

„Það er auðvitað augljóslega talsvert flókið að eiga peninga á Íslandi. Það er ekkert að því að fólk sé efnað á Íslandi.“

Ummælin vöktu mikla athygli og var Sigurður Ingi gagnrýndur fyrir þau enda bentu margir á að það væri ábyggilega flóknara að eiga ekki pening á Íslandi.

Forsætisráðherra var spurður út í þessi ummæli sín í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Hann sagði að orð sín hefðu verið slitin úr samhengi en þetta hefði þó verið óheppilega orðað hjá honum.

„Þetta var óheppilega orðað og mistök af minni hálfu klárlega. Ég hefði getað orðað þetta betur,“ sagði Sigurður Ingi.

Hann útskýrði síðan að hann hefði átt við það að þeir sem væru efnaðir á Íslandi væru stundum mikið á milli tannanna á fólki.

„Í þessu samhengi missi ég þetta út úr mér og í þessum aðstæðum sem þarna voru þá var þetta bara óheppilegt orðalag og útskýrði alls ekki það sem við Heimir vorum að spjalla um þarna niður tröppurnar.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×