Erlent

Pistorius sleppur með sex ár í staðinn fyrir fimmtán

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Oscar Pistorius í réttarsal í gær.
Oscar Pistorius í réttarsal í gær. Nordicphotos/AFP
Oscar Pistorius var í gær dæmdur í sex ára fangelsi fyrir að hafa myrt kærustu sína, Reevu Steenkamp, árið 2013.

Lögmenn hans sögðu hann ekki ætla að áfrýja dómnum heldur afplána refsingu sína.

Dómarinn, Thokozile Masipa, sagði kringumstæður valda því að hann fái ekki einu sinni þann lágmarksdóm, sem lög kveða á um, sem er fimmtán ára fangelsi.

Pistorius hafi sem sagt ekki vísvitandi ætlað sér að valda kærustu sinni bana, heldur talið að þar væri innbrotsþjófur á ferð. Hann hafi líka sýnt af sér greinilega iðrun. 

Á móti vegi að hann hafi greinilega ætlað sér að drepa manneskjuna, sem hann taldi vera innbrotsþjóf.

Í september árið 2014 dæmdi sami dómari Pistorius í fimm ára fangelsi fyrir að hafa orðið Steenkamp að bana. Hann fékk fljótlega heimild til að afplána dóminn í stofufangelsi heima hjá frænda sínum.

Hæstiréttur ógilti þennan dóm í desember síðastliðnum og sagði Pistorius sekan um morð, þar sem hann hefði átt að hafa gert sér fulla grein fyrir því að hann væri að verða manni að bana.

Masipa fékk málið aftur til meðferðar og sagðist sannfærð um að Pistorius væri ekki ofbeldismaður. Hún sagði jafnframt að sér bæri skylda til að leiðrétta þann þráláta misskilning að Pistorius hafi vísvitandi ætlað að drepa kærustu sína: „Almannarómur getur verið hávær og þrálátur, en hann getur ekki átt neinn hlut að ákvörðun þessa dómstóls.”

Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×