Innlent

Hrika­lega spenntur að spreyta sig á nýjum vett­vangi

Atli Ísleifsson skrifar
Tómas Þór mun hefja störf á Alþingi á næstu dögum.
Tómas Þór mun hefja störf á Alþingi á næstu dögum. Vísir/Mummi Lú

Tómas Þór Þórðarson íþróttafréttamaður hefur verið ráðinn sem starfsmaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins.

Þetta staðfestir Tómas Þór í samtali við Vísi, en hann skipaði fimmta sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður fyrir þingkosningarnar í nóvember síðastliðnum.

Hann segist í samtali við fréttastofu vera hrikalega spenntur fyrir þessu nýja verkefni. „Ég er bæði mjög spenntur persónulega að fá að spreyta mig á nýjum starfsvettvangi og ekki síður að fá að vinna fyrir stjórnmálaflokkinn sem ég hef kosið alla tíð. Ég er því fullur tilhlökkunar og spennu að takast á við þetta nýja verkefni.“

Stýrði umfjöllun um enska boltann í fimm ár

Tómas Þór segist hafa verið með þá flugu í maganum, allt frá því að hann sagði upp hjá Símanum í haust, að eftir tvo áratugi íþróttafréttamennsku væri gaman að fá að spreyta sig á nýjum vettvangi. 

„Ég var búinn að eiga í samræðum við fólk víða en eftir kosningarnar þá datt mér í hug að kanna hvort flokkurinn myndi vilja nýta mína krafta. Og svo var, þannig að ég er bara spenntur.“

Tómas Þór lét af störfum hjá Símanum í september síðastliðnum þar sem hann hafði stýrt umfjöllun Símans Sport um enska boltann í fimm ár. Þar áður starfaði hann hjá Sýn en hann hefur gegnt formennsku í Samtökum íþróttafréttamanna frá árinu 2019.

Tómas mun hefja störf á Alþingi á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×