Lífið

Ari Eldjárn og týnda heitapottamyndin

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Fyrir átta árum síðan gerðist svolítið sem einhverjum myndi líklegast þykja nokkuð óvanalegt í dag. Þá mættu vinirnir og grínararnir Ari Eldjárn og Jóhann Alfreð Kristinsson reglulega í heitu pottana í Vesturbæjarlauginni og þögðu.

Ástæðan var einbeittur vilji þeirra til þess að hlera þá mögnuðu umræðu sem oft á sér stað í heitu pottum sundlauganna. Þetta var gert í rannsóknarskyni fyrir handrit sem svo varð að stuttmyndinni Ber er hver að baki sem sýnd var á Skjaldborgarhátíðinni það árið.

Lesendum verður fyrirgefið fyrir að hafa aldrei heyrt hennar getið en Ari segir að aðeins fimm manns hafi verið í salnum þegar hún var frumsýnd á sínum tíma en myndin týndist í nokkur á eftir það.

Eftir að myndin fannst svo nýverið á einmanna hörðum diski í Kanada var ákveðið að skella henni út á YouTube fyrir áhugasama að sjá. Hægt er að sjá myndina hér að ofan.

Fyrstu viðbrögð við hruninu

„Ég var mjög duglegur að stunda heitu pottana í Vesturbæjarlauginni þetta ár," segir Ari Eldjárn. „Það var náttúrulega að byrja þarna hrun og það má heyra fyrstu viðbrögð fólks við því þegar krónan fer að hrynja. Þetta er samt svona hálfu ári áður en neyðarlögin voru sett.“

Eftir hinar þöglu sundlaugaferðir voru samtölin skrifuð upp eftir minni. Það eru þeir Jóhann Alfreð, Árni Vilhjálmsson úr FM Belfast og Helgi Hrafn Guðmundsson sem sjá um að endurleika samtölin. Þau eru leikin yfir myndir af tómri Vesturbæjarlaug.

„Það eru þarna táknrænir hlutir sem fólk talar um, jeppar og flatskjáir, sem sýna glöggt hvernig stemningin var á þessum tíma. Maður er að heyra smá comeback í þessu í pottunum núna. Tóninn er að koma aftur.“

Ari Eldjárn og félagar hans í Mið-Íslandi eru nú komnir í frí eftir vel heppnaða sýningatörn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×