Innlent

Ísland getur orðið vettvangur friðarumleitana

Heimir Már Pétursson skrifar
Höfða friðarsetri í Reykjavík var formlega hleypt af stokkunum í dag. Forseti íslands sagði á fyrstu ráðstefnu setursins að Ísland geti haft hlutverki að gegna í að koma á friði í heiminum.

Þegar Yoko Ono veitti Ono/Lennon friðarverðlaunin í Höfða fyrir tveimur árum tilkynnti borgarstjórinn í Reykjavík að stefnt væri að stofnun friðarseturs í Reykjavík sem kennt yrði við Höfða í samvinnu við Alþjóðastofnun Háskóla Íslands. Í dag varð þessi hugmynd að veruleika þegar fyrsta ráðstefna Höfða friðarseturs í Reykjavík var haldin.

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands ávarpaði samkomuna en hann telur Íslendinga geta lagt sitt að mörkum í friðarmálum.

„Við erum herlaus þjóð. Við höfum ekki kynnst styrjöldum á eigin grundu. En orð eru til alls fyrst og að stofna friðarsetur og kenna það við Höfða held ég að geti skipt máli. Orðið Höfði hefur í huga margra tilvísun til friðarumleitunar. Afvopnunar og notum það sem við höfum og reynum að verða að liði. Það er það sem þetta snýst um,“ segir Guðni.

Pía Hanson forstöðumaður friðarsetursins segir tilganginn með setrinu m.a. að tengja borgina og Háskólann saman á vettvangi rannsókna á stríði og friði og marka friðarstefnu fyrir borgina.

„Og við stefnum að námsbraut í átaka- og friðarfræðum við Háskóla íslands,“ segir Pía.

Þannig að þið ætlið ykkur að rannsaka bæði stríð og frið?

„Já, það er í rauninni ekki hægt að rannsaka þetta í sitt hvoru lagi. Þetta verður eiginlega að hanga saman til að maður skilji það almennilega,“ segir Pía.

Þótt Reykjavík og Ísland séu lítil í kór þjóðanna geti bæði borg og land verið vettvangur friðar.

„Við erum ekki álitin ógnandi á nokkurn hátt. Og það gefur okkur kannski visst færi á því að búa til þennan vettvang,“ segir hún.

Forsetinn tekur undir þetta sjónarmið.

„Við hljótum oft að spyrja okkur í örvæntingu hvað getum við gert. En þótt við getum stigið lítil skref eru þau kannski upphaf að einhverju. Það er að minnsta kosti skárra að gera eitthvað en ekki neitt,“ segir forseti Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×