Erlent

Tala látinna nú í 842 á Haítí

Samúel Karl Ólason skrifar
Tugir þúsunda búa nú í neyðarskýlum eða á götunni.
Tugir þúsunda búa nú í neyðarskýlum eða á götunni. Vísir/AFP
Minnst 842 eru nú látnir á Haítí vegna fellibylsins Matthew sem fór þar yfir á þriðjudaginn. Tugir þúsund heimila eru rústir einar og stór hluti uppskeru er ónýtur í einu fátækasta landi Ameríku. Fjölda fólks er enn saknað og tugir þúsunda halda til í neyðarskýlum og á götunni.

Fyrr í dag stóð opinber tala látinna í 283.

Embættismenn búast við því að tala fjöldi látinna muni hækka enn frekar en enn er ekki búið að ná sambandi við afskekkta krika eyjunnar Hispaniola. Þá hafa lík verið að koma í ljós þegar flóðavatn sígur.

Þegar fellibylur af sambærilegri stærð og Matthew skall á Haítí árið 1963 létust allt að átta þúsund manns.

Yfirvöld á Haítí áætla að minnst 350 þúsund manns þurfi á aðstoð að halda. Hjálparsamtök um allan heim eru þegar byrjuð að safna fé til að koma íbúum til hjálpar.

Matthew herjar nú á strendur Flórída þar sem minnst 600 þúsund heimili eru án rafmagns.


Tengdar fréttir

Milljónum manna sagt að forða sér

Íbúar á austurströnd Flórída, Georgíu og Suður-Karólínu í Bandaríkjunum voru í gær að búa sig undir hrikalegar hamfarir þegar fellibylurinn Matthías kemur þangað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×