Innlent

Guðni líklegasta sameiningartákn Íslendinga

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Guðni Th. Jóhannesson.
Guðni Th. Jóhannesson. vísir/eyþór
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, er sá einstaklingur sem flestir telja að gæti orðið sameiningartákn fyrir íslensku þjóðina. Þetta er niðurstaða könnunar MMR sem var gerð dagana 20. til 26. september.

Í könnuninni var spurt hvort svarendur gætu nefnt einhvern einstakling í samfélaginu að fyrra bragði sem það teldi frekar en aðra geta orðið sameiningartákn. Samskonar könnun var framkvæmd í september árið 2009 og vakti þá athygli hversu fáir gátu nefnt slíkan einstakling. Þá nefndu aðeins 1% þjóðarinnar þáverandi forseta, Ólaf Ragnar Grímsson, sem sameiningartákn þjóðarinnar. Í nýju könnuninni nefndu 15,4% sitjandi forseta, Guðna Th. Jóhannesson sem sameiningartákn þjóðarinnar.

Vigdís Finnbogadóttir er sá einstaklingur sem var næst oftast nefndur sem sameiningartákn þjóðarinnar með 3%. Vigdís er einnig eini einstaklingurinn sem komst á lista bæði árin sem könnunin var gerð og var hún efst á listanum árið 2009 með 4,5%.

Þá var Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, nefnd af 1,5% svarenda og 1% nefndu Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins.

Tónlistarmaðurinn Páll Óskar Hjálmtýsson hlaut þá 1,1% nefninga.

Mynd/MMR



Fleiri fréttir

Sjá meira


×