Innlent

Börnin léku sér í myglu

Benedikt Bóas Hinriksson skrifar
Leikskólinn við Hofsós er myglaður í þaki.
Leikskólinn við Hofsós er myglaður í þaki.
Börn í leikskólanum Tröllaborg á Hofsósi léku sér um stund í myglu í húsnæði leikskólans. Myglan einskorðaðist við háaloft hússins og að loknum þrifum og þéttingu á loftlúgu kom í ljós að myglugró í leikstofum barna voru ekki til staðar. Foreldrar barna á Hofsósi urðu eðlilega skelkaðir þegar myglan kom í ljós en Anna Árnína Stefánsdóttir leikskólastjóri segir að myglan sem fannst hafi ekki verið skaðleg og því hafi foreldrar og starfsfólk róast. „Húsið er frekar lélegt. Þetta er ekki þessi hættulega mygla en það þarf auðvitað að laga þetta. Þegar niðurstaða kom þá róuðust allir og það er verið að vinna í málinu.“

Í fundargerð Heilbrigðiseftirlitsins á Norðurlandi vestra segir að niðurstöður athugana á leikskólanum sýni að myglan einskorðaðist við háaloft hússins og að loknum þrifum og þéttingu á loftlúgu kom í ljós að myglugró í leikstofum barna voru ekki til staðar. Heilbrigðisnefndin fór fram á að fá tímasetta úrbótaáætlun um endurbætur á húsnæðinu fyrir lok nóvember 2016 og áfram verður fylgst með og sýni tekin.

Í fundargerð bæjarins kom fram að húsnæði leikskólans væri ekki viðunandi og þarfnist verulegra úrbóta. Mikilvægt sé að leysa húsnæðismálin til framtíðar, segir meðal annars í fundargerðinni. Þar kemur einnig fram að Ásta Björg Pálmadóttir sveitarstjóri eigi að koma með tillögu til úrbóta svo að skólastarf raskist sem minnst. Byrja á hönnunarvinnu á húsnæði grunnskólans austan vatna á Hofsósi með það fyrir augum að grunn-, leik- og tónlistarskóli verði undir einu þaki. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×