Innlent

Góðkunningi lögreglu ákærður fyrir hótanir sem leiddu til umsátursástands á Völlunum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Loftmynd frá aðgerðum lögreglu við Kirkjuvelli í ágúst í fyrra.
Loftmynd frá aðgerðum lögreglu við Kirkjuvelli í ágúst í fyrra. Vísir
Karlmaður á fimmtugsaldri hefur verið ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa að kvöldi sunnudagsins 9. ágúst í fyrra ráðist að tveimur lögreglumönnum með hótunum um ofbeldi. Lögreglumennirnir höfðu komið í heimsókn vegna tilkynningar um mikinn hávaða.

Karlmaðurinn, Benedikt Bragason, kom mjög æstur til dyra að því er segir í ákæru og hótaði lögreglumönnunum líkamsmeiðingum. Bæði með því að ætla að sparka í þá og taka útidyrahurðina af hjörunum og berja þá. Þegar annar lögreglumaðurinn hugðist úða piparúða á hann fór hann inn í íbúðina, lokaði útidyrunum og sagðist ætla að sækja riffilinn.

Lögreglumennirnir tóku hótun hans alvarlega og óskuðu eftir aðstoð sérsveitarinnar. Í hönd fór mikið óvissuástand í Vallarhverfinu þar sem götum var lokað og fólk beðið um að halda sig innandyra.  Ástandið varði í tæpa þrjá tíma en Benedikt var að lokum handtekinn vopnaður golfkylfu og hníf.

Hann hefur ítrekað komist í kast við lögin undanfarna tvo áratugi og meðal annars hlotið dóma fyrir að skjóta úr haglabyssu að íbúðarhúsum, flytja inn kókaín og selja auk þess sem 170 kannabisplöntur fundust á heimili hans árið 2004.

Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjaness á fimmtudaginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×