Innlent

Hviður gætu orðið varasamar

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Búist er við stormi syðst á landinu í dag.
Búist er við stormi syðst á landinu í dag. Vísir/Vilhelm
Búist er við stormi syðst á landinu í dag, sérstaklega í nágrenni Eyjafjalla. Einnig gætu orðið varasamar hviður víðar í suðvesturfjórðungnum, eins og tildæmis á Reykjanesi og Kjalarnesi

Úrkoma sunnanlands verður lítil, smávegis dropar við og við, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar. Norðanlands verður fínt veður, hægari vindur, bjart og hiti allt að 16 stig. Skil frá lægðinni koma síðan inn á landið eftir miðnætti og þá rignir.

Á morgun er útlit fyrir suðaustan strekking með dálitlum skúrum, en áfram verður hægara og bjartara veður á Norður- og Austurlandi. Á sunnudag er sunnanátt í kortunum með ákveðinni rigningarspá fyrir sunnan- og vestanvert landið.

Veðurhorfur á landinu

Suðaustan 13-23 m/s og lítilsháttar væta sunnantil á landinu í dag, hvassast allra syðst. Hægari vindur og bjartviðri norðanlands.

Víða rigning í nótt, en suðaustan 8-15 á morgun og dálitlir skúrir.  Hiti 8 til 15 stig, hlýjast fyrir norðan.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag:

Suðaustan 8-13 m/s, en 13-18 vestast á landinu. Víða dálítil væta, en þurrt að kalla norðanlands. Hiti 8 til 15 stig, hlýjast fyrir norðan.

Á sunnudag:

Suðaustan 10-18 og rigning, en úrkomulítið norðaustantil á landinu. Snýst í hægari sunnanátt síðdegis með skúrum, fyrst á suðvesturhorninu. Hiti 7 til 12 stig.

Á mánudag:

Suðvestan 5-10 m/s og skúrir, en léttir til um landið austanvert. Kólnar um tíma, hiti víða 5 til 10 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×