Lífið

Landsliðsfyrirliðar takast á

Stefán Árni Pálsson skrifar
Aron Einar og Guðjón Valur.
Aron Einar og Guðjón Valur. vísir
Landsliðsfyrirliðarnir Guðjón Valur Sigurðsson og Aron Einar Gunnarsson hafa undanfarna daga att kappi í flatbökusölu á Íslensku flatbökunni, þar sem Guðjón Valur er meðeigandi.

Ástæða einvígsins er að leggja Mottumars lið en ágóði bökusölunnar rennur óskiptur til átaksins. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Guðjón tekur upp á þessu, en hann skoraði á Aron Pálmarsson í fyrra og hafði betur, en þá safnaðist yfir hálf milljón króna sem rann beint til átaksins.

Valgeir Gunnlaugsson, eigandi Íslensku Flatbökunar, segir að ekki hafi komið annað til greina en að endurtaka leikinn.

„Þetta var mjög gaman í fyrra og var þessu vel tekið.  Fólk er bæði að styrkja gott málefni og fá alvöru eldbakaða flatböku á góðu verði,“ segir hann.

Bæði Guðjón og Aron hönnuðu sína böku og ákvað Guðjón að taka smá áhættu þar sem bakan er í sterkari kantinum. Aron fór mýkri leið og eins og staðan er núna er baka Arons að seljast betur.

„Allir sem kaupa bökur strákanna fara svo í pott og geta átt von á því að vinna treyjur frá báðum landsliðsfyrirliðunum,“ segir Valgeir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×